Styrkja tengsl skólans við nærumhverfið
Kynning á Comeniusar-verkefni í Grunnskólanum í Sandgerði.
„Með verkefninu er ætlunin að efla kennara í tengslum við gerð námskrár og þróa hana í náttúrufræðum, listum og verkgreinum. Unnið er með efnið þvert á námsgreinar þannig að sá efniviður sem nemendur læra um í náttúrufræði er nýttur við hönnun og sköpun skarts-, handverks- og skrautmuna. Auk þess er unnið með hráefni í heimilisfræði í beinum tengslum við verkefnið. Þannig nýtist sú þekking sem nemendur öðlast á fjölbreyttan hátt og sá efniviður sem unnið er með hverju sinni verður merkingabærari fyrir nemendur,“ segir Elín Yngvadóttir, kennari við Grunnskólann í Sandgerði. Ásamt samkennara sínum, Bylgju Baldursdóttur, og fleirum hefur Elín staðið að undirbúningi kynningar á Comeniusar-verkefni sem stofnanir innan Sandgerðisbæjar taka þátt í með félögum sínum í Mättä Vilppula í Finnlandi. Verkefnið kallast Comenius Regio Development og Curricula and Teacher Training.
Kennsluaðferðir bornar saman og þróaðar
Sandgerðisbær, Grunnskólinn í Sandgerði, Leikskólinn Sólborg, Listatorg- lista og menningafélag, Þekkingarsetur Suðurnesja, Náttúrustofa Suðvesturlands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum taka þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd. „Verkefninu er ætlað að tengja skólana við stofnanir og félög í nærumhverfinu, styrkja og bæta tengsl á milli stofnana og stækka sjóndeildarhring allra sem að því koma. Skipulagðar voru vinnustofur í báðum löndunum þar sem skipst var á hugmyndum og efniviði. Kennsluaðferðir og námskrár landanna voru bornar saman og þær þróaðar samhliða verkefninu“. Í gegnum samstarfið, heimsóknirnar og vinnu við verkefnið í hvoru landi fyrir sig hefur heilmikið safnast af efni sem verður til sýnis á Bókasafninu í Sandgerði í tengslum við safnahelgi á Suðurnesjum helgina 13.-15. mars.