Stútfull bók af ævintýrum æskunnar
Flöskuskeyið er fyrsta bók Sigríðar Dúu.
Líklega þekkja allir eða muna eftir leyndardómi og spenningi sem fylgir flöskuskeytum. Margir hafa hent flösku út í sjó í von um að hún reki á framandi slóðir. Einhverjir hafa fundið flöskuskeyti og jafnvel tengst fólki böndum úr fjarlægum heimi. Í fyrstu bók Njarðvíkingins Sigríðar Dúu Goldsworthy kemur flöskuskeyti við sögu og ýmis ævintýri sem nútímakrakkar gætu lent í.
Sagan gerist í nútímanum
„Hugmyndin að bókinni byrjaði þannig að það er tún fyrir utan þar sem ég bý í Hafnarfirði og þar var dóttir mín í leiknum í Einni krónu. Þá var mér hugsað til stóra túnsins við Klapparstíginn og Tunguveginn í Njarðvík. Svo varð sagan smátt og smátt til,“ segir Sigríður Dúa. Dísa og Daníel eru aðalpersónurnar og sagan tekur yfir eitt ár í lífi Dísu. Ævintýrin stigmagnast sem þau lenda í. Við sögu koma meðal annars draugar, glæpamenn, skóli, björgunarsveit, lögregla, peningar, bækur og tónlist. Sagan gerist í nútímanum og því eiga krakkarnir ipod og tölvur.
„Fullorðnir sem hafa lesið bókina finnst þeir upplifa á ný þeir gerðu í æsku. Í henni er alvarlegur undirtónn annað slagið; hvernig sé að vera einn, að það borgi sig ekki að vera vondur við aðra og áhrif kreppunnar á börn. Börn hafa nefnilega upplifað að eitthvað sem gerðist sem var ekki gott og renna einhvern veginn í gegnum lífið án þess að það sé rætt almennilega við þau.“ Bókin er skrifuð með aldurinn 8 - 12 ára í huga. „Hún er stútfull af ævintýrum æskunnar. Farið er niður í fjöru og ýmislegt gerist. Krakkar eru fullir af ævintýrum. Bæta dýrðarljóma á lífið sem fullorðna fólkið gleymir,“ segir Sigríður Dúa.
Skrifaði í erfiðum veikindum
Sigríður Dúa segist hafa lengi haft bókina í maganum, finnist gott og gaman að skrifa og sé hálfgerður skúffurithöfundur. Hún veiktist fyrir nokkrum árum, fékk gigtar- og sjálfsofnæmissjúkdóm sem erfitt var að eiga við. Hann ræðst á líkamann og líffærin eins og aðskotahlut. „Þegar maður er svona mikið veikur hefur maður tíma til að hugsa. Ég samdi í huganum þegar ég var að einbeita mér að jákvæðni.
Þetta óhapp mitt að verða veik reyndist grunnurinn að því að skrifa þessa bók,“ segir Sigríður Dúa brosandi og bætir við: „Ég hugsaði: Já, ég get eitthvað. Ég er ekki bara föst á hliðarlínunni. Ég get skrifað bók.“ Þá segir hún að tilfinningin að fá bókina í hendur hafi verið einstök; eiginlega eins og að á lítið barn í hendurnar. „Svo þarf ég að hleypa því einu út í heiminn og vona að það fái góðar móttökur.“
Var föðurlaus til tvítugs
Sigríður Dúa er fædd og uppalin í Njarðvík og á bandarískan föður sem sem dó 1996. „Ég kynntist honum ekki fyrr en ég var orðin tvítug. Núna á ég níu systkini í Bandaríkjunum sem er aldeilis breyting frá því að eiga eina systur á Íslandi. Það var alltaf dálítið gat í sálinni þegar ég var föðurlaus. Grímur móðurbróðir minn hefur alltaf verið mér sem faðir og hefur aldrei átt börn sjálfur. Hann er rosalega góður við mig og systur mína og ég á honum svo margt að þakka.“
Hún segir ólíkar fjölskyldugerðir koma fram í bókinni Flöskuskeytið og til að mynda eigi önnur aðalpersónan, Daníel, engan pabba. „Það er ein persóna í sögunni raunveruleg, kötturinn Moli, hann heldur til hérna við lækinn í Hafnarfirði og er mjög hændur að börnunum sem þangað koma,“ segir Sigríður Dúa. Bókin Flöskuskeytið er seld í helstu bókaverslunum landsins. Útgáfuteitið verður haldið á efri hæð Eymundssonar við Austurstræti á morgun, föstudaginn 13. desember, klukkan 18:00.
VF/Olga Björt