Sturlaðar staðreyndir í bók
Vinirnir Ásgeir og Siggeir eyddu mörgum kvöldum og helgum á Bókasafni Grindavíkur í að skrifa bók
Fánýtur þjóðlegur fróðleikur er ný bók tveggja æskuvina úr Grindavík, þeirra Ásgeirs og Siggeirs. Bókin inniheldur skemmtilegar staðreyndir um hitt og þetta, bæði gagnlegar og einhverjar ekki svo gagnlegar ásamt miklu af teiknuðum myndskreytingum. Hugmynd að slíkri bók hafði komið upp á borðið fyrir nokkrum árum og loks ákváðu félagarnir að slá til, því margar hendur vinna jú létt verk.
Hverjir eru höfundarnir?
Við heitum Ásgeir Berg Matthíasson og Siggeir F. Ævarsson og erum æskuvinir úr Grindavík. Ásgeir er í doktorsnámi í Skotlandi í heimspeki og ég er menntaður sagnfræðingur og starfa sem upplýsingafulltrúi hjá Grindavíkurbæ.
Um hvað er bókin og fyrir hverja?
Bókin er mjög lífleg og mikið myndskreytt en það eru yfir 1.700 staðreyndir í henni. Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í bókinni, markhópur hennar er í raun mjög breiður. Bókin er um allt milli himins og jarðar. Sumar staðreyndirnar í henni eru mjög handahófskenndar á meðan aðrar eru kannski „hefðbundari,“ en flestar eru þær vonandi skemmtilegar. Staðreyndirnar fundum við víða. Við eyddum mörgum kvöldum og helgum á Bókasafni Grindavíkur þar sem við flettum bókum, vefsíðum og blöðum og grófum upp staðreyndir úr öllum áttum. Þá voru líka nokkrir hjálpsamir aðilar sem gaukuðu að okkur skemmtilegum staðreyndum eða hjálpuðu til við að staðfesta eða hrekja aðrar staðreyndir. Myndirnar í bókinni teiknuðu þau Bjarney Hinriksdóttir og José Vásquez.
Hvernig datt ykkur í hug að gera bók með skemmtilegum staðreyndum?
Fyrir ansi mörgum árum þýddi Ásgeir erlendar bækur af sama meiði sem hétu Fánýtur fróðleikur. Það var alltaf á stefnuskránni að gera íslenska bók og í fyrra hafði útgefandinn, Tómas Hermannsson, samband við hann og spurði hvort það væri ekki kominn tími til að gera alvöru úr þeim fyrirætlunum. Það óx honum þó töluvert í augum en Siggeir sannfærði hann um að margar hendur myndu vinna létt verk og að saman yrði þetta ekkert mál, svo við létum slag standa. Það reyndist að sjálfsögðu hárrétt enda var mjög gaman að vinna að bókinni og vonandi sjá lesendur eitthvað af gleðinni skína í gegn.
Er þetta fyrsta bók ykkar?
Siggeir skrifaði Sögu Lionsklúbbs Grindavíkur sem kom út í fyrra á 50 ára afmæli klúbbsins og Ásgeir er búinn að þýða fjórar bækur af fánýtum fróðleik.
Stefnir þú eða þið á að gefa út fleiri bækur í framtíðinni?
Það væri algjör draumur að geta starfað við það að skrifa bækur, verðum við ekki bara að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér?
Hvenær kom bókin út? Hvernig hafa viðtökurnar verið?
Hún er nánast rjúkandi heit úr prentsmiðjunni. Hún fór í dreifingu í síðustu viku og er núna fáanleg í öllum betri bóka- og matvöruverslunum. Fyrstu viðbrögð hafa verið góð og vonandi sjáum við hana toppa sölulistana á næstu dögum.
Var einhver sem veitti ykkur innblástur við gerð bókarinnar?
Við leituðum fanga hjá nokkrum góðum höfundum og í þeirra bókum. Ber þar helst að nefna Snæbjörn Guðmundsson, Dr. Gunna, Árna Björnsson og Víði Sigurðsson. Bókin sjálf byggir svo á erlendri fyrirmynd en við erum að okkar mati búnir að búa til bók sem er í raun mun veglegri og eigulegri gripur en fyrirrennarar hennar. Það er stundum grínast með að gömlu bækurnar séu til á mörgum baðherbergjum en þessi ætti að vera til í öllum betri stofum landsins.
Ásgeir og Siggeir á toppi Þorbjarnar er þeir vinir tóku sér pásu frá skriftum í sumar.