Stundum eru flösku- og dósapeningarnir þeir síðustu
Suðurnesjamenn fengu 85 millj. kr. fyrir dósaskil á síðasta ári.
-Dósasel Þroskahjálpar á Suðurnesjum tekur við hálfri milljón drykkjaríláta á mánuði. Skiptir starfsemi Þroskahjálpar miklu máli. Síðustu dagar mánaðarins stærstir.
Um 85 milljónir króna voru greiddar til Suðurnesjamanna í formi skilagjalds fyrir rúma fimm og hálfa milljón drykkjaríláta sem skilað var til Dósasels við Iðavelli í Keflavík á síðasta ári. Í Dósasel mæta að jafnaði nærri 100 manns á dag með um 200-300 drykkjarílát hver og fá til baka svokallað skilagjald, 15 krónur á ílát. Hvern dag eru því greiddar út hundruð þúsunda króna.
Mikilvægt starf
Þroskahjálp á Suðurnesjum rekur Dósasel og er með umboð fyrir Endurvinnsluna. Ásmundur Friðriksson, alþingismaður er formaður Þroskjahjálpar. Hann segir starfið í Dósaseli ákaflega skemmtilegt. Þar vinni duglegir einstaklingar undir stjórn mæðgna úr Garðinum og óhætt sé að segja að oft sé fjör þegar dósir og flöskur í þúsundatali rúlli í gegnum vélarnar og hendur starfsmanna Dósasels. „Þessi rekstur skiptir Þroskahjálp og þessa einstaklinga miklu máli og afkoman er góð og mikilvæg, bæði peningalega og andlega séð. Þá er þakkarvert hvað Þroskahjálp og Dósasel eiga marga vildarvini hér á Suðurnesjum, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Ég vil t.d. nefna Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem hefur nýtt starfskrafta okkar og þá höfum við fengið að eiga öll drykkjarílát sem þar eru skilin eftir,“ sagði Ásmundur sem ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum í Þroskahjálp, þeim Freimóði og Theodór, leystu félaga sína í Dósaseli af á dögunum þegar starfsmennirnir fóru á íþróttamót.
„Við höfðum mjög gott af því að vinna í Dósaseli og ekki síður var það góður lærdómur fyrir mig sem alþingismann að þreifa svona á púlsi samfélagsins. Hann slær hér því hingað kemur fólk úr öllum stéttum samfélagins,“ sagði Ásmundur.
Mægður við stjórnvölinn
Mæðgurnar Inga Jóna Björgvinsdóttir, forstöðumaður og Marsibil dóttir hennar, starfsmaður, báðar úr Garðinum, eru við stjórnvölinn í Dósaseli en þar starfa að auki átta einstaklingar sem allir eru með skerta starfsorku á einhvern hátt. „Þetta er mjög skemmtilegur vinnustaður og hingað koma allir. Traffíkin er meiri þegar líður á mánuðinn og þegar mánaðamótin nálgast er oft löng biðröð hér fyrir utan. Við fáum stundum að heyra að peningarnir sem viðkomandi fær fyrir dósirnar og flöskurnar sé það eina sem til er í buddunni síðustu daga mánaðarins. Það má því segja að við séum tengd þjóðarpúlsinum hér í Dósaseli,“ segja þær Inga Jóna og Marsibil.
Þegar þær voru spurðar hvort fólk hefði áhyggjur af því að starfsmenn Dósasels væru að pæla í því hvers lags dósir eða flöskur væru í pokum viðkomandi hlógu þær og sögðu það af og frá. „Það er engin að hugsa um það hér. Við erum að taka við nokkur hundruð pokum á dag og þetta þarf að fara hratt og vel í gegnum kerfið,“ sögðu þær en bættu við að af og til kæmu sérstakar flöskur eða dósir og hugmynd hefur verið slegið fram um að setja upp safn með slíkum ílátum.
Sjónvarp Víkurfrétta heimsótti Dósasel og í þætti vikunnar er fjallað um starfsemi þessa merkilega vinnustaðar.
Dósir og flöskur flæða úr pokum Suðurnesjamanna um færibandið á Dósaseli.
Mæðgurnar Inga Jóna og Marsibil með stóran poka á milli sín.
Ásmundur Friðriksson, formaður Þroskahjálpar og félagar hans leystu af í Dósaseli á dögunum.
Kannski verður sett upp safn með sérstökum flöskum og dósum.
Þetta er kókflaska sem var framleidd í tengslum við brúðkaups Karls bretarprins og Díönu árið 1981.
Þeir passa að öll ílát fari á rétta staði strákarnir.