Stundar tímamótarannsóknir í USA
Keflvíkingurinn Júlíus Friðriksson er prófessor í talmeinafræði við Suður-Karólínu háskóla í Bandaríkjunum. Í síðustu viku hlaut hann rannsóknarstyrk upp á tvær milljónir Bandaríkjadollara en hann hlaut svipaðan styrk fyrir rúmu ári. Júlíus stjórnar umfangsmiklum rannsóknum á málstoli einstaklinga sem fengið hafa heilablóðfall og hvernig þeir fái bata. Þetta í fyrsta sinn sem talmeinafræðingur fær svo háa styrki á stuttum tíma.
Hófu starfsævina á bryggjuni hjá afa
Júlíus er fæddur í Keflavík árið 1969. Tuttugugu og tveggja ára gamall fluttist hann til Bandaríkjanna þar sem hann hefur dvalið að mestu síðan. Hann er sonur hjónanna Friðriks Georgssonar og Önnu Jónsdóttur. Föðurafi hans var Georg Helgason sem margir kannast við af bryggjunni í Keflavík en Georg var í mörg herrans ár verkstjóri hjá Skipaafgreiðlsu Suðunresja. Eins og margir ungir menn í Keflavík, sem Georg leyfði að „að húkka á“ sem kallað var, hófu Júlíus og bræður hans starfsævi sína á bryggjunni hjá afa þeirra og voru orðnir alvanir í skipavinnunni, eins og Júlíus orðar það sjálfur.
„Ég fór til Bandaríkjanna í nám 1993 og kom hér heim á sumrin til að vinna hjá Flugleiðum. Upp úr 1996 var ég alfarinn út í doktorsnám og eftir það er ég búinn að vera við störf hérna í Suður-Karólínu síðan 2001,“ segir Júlíus sem nú starfar sem prófessor við háskólann þar.
Umfangsmikið verkefni
Júlíus og teymi hans fékk rannsóknarstyrk á síðasta ári upp á 1,6 milljónir Bandaríkjadala og styrkurinn nú er upp á 2 milljónir.
„Rannsóknunum er ætlað að auka skilning á bata sjúklinga eftir heilablóðfall og hvernig heilinn breytist þegar fólk nær bara. Þetta flokkast undir það sem kallast tauga-lífeðlisfræði. Við gerum ráð fyrir að hvort verkefnið um sig taki sex ár þannig að þetta er mjög umfangsmikil vinna og því gaman að fá þennan styrk,“ segir Júlíus. Hann er stjórnandi verkefnisins en undir hann heyrir rannsóknarteymi sem samanstendur af taugalæknum og fagfólki sem annast læknismeðferð.
„Það er nú alltaf að koma eitthvað nýtt í ljós,“ segir Júlíust aðspurður um það hvort eitthvað hafi komið á óvart í þessum rannsóknum. „Það er kannski ekki létt að útskýra það á mannamáli en í grófum dráttum erum við að komast að því hvernig heilinn bætir sig. Við vitum nefnilega alveg ótrúlega lítið um það, sérstaklega í fullorðnu fólki. Flestir sem fá heilablóðfall eru komnir yfir fertugt og sú skoðun hefur verið ríkjandi að eldra fók ætti lítinn möguleika á bata. En það er alls ekki. Heilinn er alveg ótrúlega seigur að koma á vissum breytingum en það er aldrei nóg. Stór hluti þessa fólks er hefur hlotið mikinn skaða og við erum að reyna gera okkar besta til finna leiðir í því að bæta bata þeirra. Til að örva þennan bata þurfum við að finna hvar þessar batastöðvar, sem við getum kallað svo, eru í heilanum. Mikið af vinnunni hefur farið í að finna það út. Núna fyrst erum við farin að vinna að því að örva þessar stöðvar til að auka batann,“ segir Júlíus aðspurður um rannsóknirnar.
Af hangikjöti og körfubolta
Við snúum talinu að öðru og ég spyr Júlíus hvort hann haldi ekki íslensk jól þarna úti.
„Jú, að sjálfsögðu. Mamma og pabbi koma í næstu viku með hangikjöt og laufabrauð og ætla að vera hjá okkur um jólin (viðtal tekið í síðustu viku – innsk. blm)
Ég var nú reyndar heima á Íslandi í þar síðustu viku og gat ekki látið hjá líða að fá mér smá jólamat. Annars höfum við fjölskyldan oft verið heima á Íslandi um jólin hjá mömmu og pabba. Það er ósköp gott,“ segir Júlíus.
Eins og margir vita er Júlíus gamall körfuboltakappi en hann spilaði með Keflvík í úrvalsdeild á árum áður eða fram til 1992 og varð tvisvar sinnum Íslandmeistari með liðinu. Aðspurður segist hann alveg hættur að sprikla í boltanum en fylgist vel með NBA deildinni.
„Uppáhaldsliðið er Orlando Magic, Fór að halda með þeim þegar ég bjó í Orlando um tíma. Það var á gullaldarárum þeirra með Shaq og Penny Hardaway í fararbroddi. Ég fór nokkrum sinnum að horfa á þá og hef haldið með liðinu síðan.“