Stundar mastersnám samhliða fullri vinnu
Dína María er 23ja ára Grindvíkingur sem er að gera það gott á vesturströnd Bandaríkjanna um þessar mundir. Ekki nóg með að vera í fullri vinnu sem innkaupastjóri fyrir framleiðslufyrirtæki, heldur stundar hún einnig fullt mastersnám. Dína flutti til Bandaríkjanna í ágúst 2010 þar sem hún hafði fengið atvinnutilboð frá fyrirtækinu sem hún vinnur fyrir í dag, RJR Polymers Inc. „Ég hafði farið í skiptinám til Spánar þegar ég stundaði nám við Háskólann í Reykjavík og myndað tengsl þar. Eftir útskrift úr HR vorið 2010 sendi ég ferilskrána til aðilans í Bandaríkjunum sem ég hafði myndað tengsl við, fékk símaviðtal við fyrirtækið og í kjölfarið atvinnutilboð,“ segir Dína María um upphafið að Ameríkuævintýrinu. Dína byrjaði sem greiningaraðili í fjármáladeild fyrirtækisins en fékk svo stöðuhækkun upp í stöðuna sem hún gegnir í dag.
Í mastersnámi samhliða fullri vinnu
Meðfram vinnunni stundar Dína fullt nám við San Jose State University þar sem hún stefnir á að klára mastersgráðu í iðnaðar- og kerfisverkfræði. Námið finnst henni skemmtilegt en krefjandi og hún hefur nóg að gera þar sem vinnuvikan er 40 tímar og hún er í fimm tímum í skólanum. „Þetta þýðir að ég er að frá sex á morgnana til tíu á kvöldin. Næsta önn verður vonandi aðeins rólegri þar sem ég ætla að taka færri áfanga en taka þá frekar einn áfanga um sumarið. Þá verður bóklega náminu lokið og aðeins meistaraverkefnið eftir sem ég ætla að vinna í samvinnu við fyrirtækið mitt.“
Stundar hollt líferni og hreyfingu
En að stunda nám og vinna fulla vinnu er ekki nóg fyrir þennan grindvíska dugnaðarfork en hún stundar líkamsrækt allt að fimm sinnum í viku. Í samfélaginu þar sem Dína býr er mikil menning fyrir því að stunda hollt líferni og hreyfir fólk sig almennt mikið. Dína hefur tekið þátt í þríþraut og hefur hlaupið tvö hálfmaraþon síðan hún flutti til lands skyndibitastaðanna. „Auðvitað sér maður mikið af skyndibitastöðum en þetta er þó einn af þeim stöðum þar sem hlutfall feitra er lægra en vanalega gengur og gerist í Bandaríkjunum.“
Afslappað fólk, góður matur og milt veður
Dína kann vel við fólkið á vesturströndinni sem hún segir afslappaðra en á austurströndinni sem hún hefur heimsótt. Einnig hefur hún ferðast um Suður-Kaliforníu og heimsótt borgir eins og Arizona og Seattle. Að auki líkar Dínu vel við matinn á svæðinu sem hún segir mjög fjölbreytilegan, það sé hægt að fá mat frá næstum hvaða landi sem er. Aðspurð um veðrið sem er skylduspurning fyrir alla Íslendinga sem búa erlendis segir Dína það vera mjög þægilegt allt árið um kring en á sumrin er hitinn um 25-35 gráður og á veturna fer hann niður í 5-10 stig.
Gott að búa í litlu samfélagi
Svæðið þar sem Dína býr býður upp á mikla möguleika, það eru strendur fyrir sunnan, vínhéruð fyrir norðan, hægt er að fara á snjóbretti á veturna og í skemmtilegar borgarferðir á hvaða tíma árs. Dína býr í Alameda sem er lítill bær um 20 km frá San Francisco. Þar kann hún rosalega vel við sig en að eigin sögn varð hún ástfangin af bænum þar sem hún hefur alltaf kunnað vel við sig í litlu samfélagi eins og Grindavík. Bærinn er öruggur og stutt að fara í borgina. Á Íslandi hafði hún alltaf búið hjá foreldrum sínum og flutningurinn tók á til að byrja með, Dínu fannst skrítið fyrst að vera alveg ein á báti. Hins vegar fékk hún góða aðstoð frá vinnuveitendum sínum og í dag finnst henni lítið mál að vera ein. Dína á kærasta á Íslandi sem bíður eftir henni heima en þau reyna að hittast nokkrum sinnum á ári. Einnig hefur fjölskyldan verið dugleg að heimsækja hana ásamt vinum enda finnst þeim ekki leiðinlegt að heimsækja hana í sólarsæluna í Kaliforníu.
Stefnir á að eyða næstu árum í Bandaríkjunum
Dína María er bæði íslenskur og bandarískur ríkisborgari og sér því fram á að eyða nokkrum árum í viðbót í Bandaríkjunum. Hins vegar langar hana að koma heim þegar kemur að því að stofna fjölskyldu. „Ég get ekki séð fyrir mér að vera með fjölskyldu neins staðar annars staðar en heima á Íslandi. En á meðan maður er ungur og hefur í raun og veru engar skuldbindingar finnst mér um að gera að nýta þetta tækifæri,” segir þessi ævintýragjarna Grindavíkurmær að lokum.
Myndir úr einkasafni: Efst er Dína vinstra megin ásamt vinkonu sinni á góðri stundu. Fyrir miðju er Dína að keppa í hlaupi en hún er hægra megin á myndinni. Á neðstu myndinni er Dína önnur frá hægri í brúðkaupi í Seattle.