STÚLKNAKÓRINN GEFUR ÚT GEISLADISK
Geisladiskur Stúlknakórs Tónlistarskólans í Keflavík, Reynum aftur, kemur í verslanir um miðjan desember. Gróa Hreinsdóttir stjórnaði kórnum og lék undir í nokkrum lögum. Lagavalið er mjög fjölbreytt en þar má heyra sígild íslensk og erlend lög, m.a. Ísland farsælda frón, Íslands lag eftir Björgvin Guðmundsson, Lítill drengur eftir Magnús Kjartansson, Brúðarskórnir efir Þóri Baldursson og Reyndu aftur eftir Magnús Eiríksson.Upptökur fóru fram í Safnaðarheimilinu í Sandgerði dagana 21. og 22. nóvember og upptökum stjórnaði Guðmundur Kristinn Jónsson frá Hljóðveri 60b í Keflavík. Einsöngvarar eru Bergný Th. Baldursdóttir, Hördís Egilsdóttir og Margrét Rósa Haraldsson. Marína Ósk Þórólfsdóttir leikur á þverflautu, Helgi Már Hannesson á píanó, Þórólfur Ingi Þórsson á bassa og Vilhelm Ólafsson á trommur. Gróa Hreinsdóttir sagði að ákveðið hefði verið að gefa út geisladisk í framhaldi af vel heppnuðu tónleikaferðalagi sem kórinn fór í til Bandaríkjanna s.l. vor. „Kórinn hélt tónleika í vor á Íslandi og sló algerlega í gegn. Við áttum líka svolitla peninga afgangs eftir Bandaríkjaferðina og í samráði við foreldra var ákveðið að nota þá til að gefa út geisladisk. Við gerum ráð fyrir að geisladiskurinn verði kominn í verslanir um miðjan desember en hann verður líka til sölu hjá kórfélögum“, sagði Gróa.