Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stuðkvöld Karlakórs Keflavíkur
Fimmtudagur 26. október 2006 kl. 09:17

Stuðkvöld Karlakórs Keflavíkur

Þann 11. febrúar sl. vetur hélt Karlakór Keflavíkur, í samvinnu við Félag harmonikuunenda á Suðurnesjum, skemmtun í húsi sínu að Vesturbraut 17.  Var skemmtun þessi kölluð Stuðkvöld.  Þema kvöldsins var tengt sjó og sjávarútvegi og voru skreytingar í sal miðaðar við það. Veislustjóri var Stefán Jón Bjarnason.  Örn Garðarson matreiðslumeistari tók að sér að sjá um mat og var á boðstólnum sjávarréttarsúpa borin fram í brauði og kjúklingasalad.  Leynigestur kvöldsins var Hjálmar Árnason alþingismaður. Kórfélagar sáu sjálfir um framreiðslu og alla þjónustu í sal og var þá sleppt hinum hefðbundna græna karlakóra jakka og gengu félagar um á hvítum skyrtum með rauðan mittislinda og voru pínlítið suður-amerískir í útliti.  Söngur var þannig útfærður að ekki var stillt upp áhefðbundið þannig að þegar söngstjórinn, Guðlaugur Viktorsson, kallaði  til söngs var sungið nokkurn veginn þar sem menn stóðu í það og það skiptið og milli söngatriða spiluðu svo félagar úr harmonikkufélaginu. Matur undir styrkri stjórn Arnar Garðarsonar var mjög góður og gerðu gestir honum góð skil.  Hjálmar Árnason, „leynigestur,” fór á kostum eins og honum einum er lagið.  Söngur karlakórsins mæltist vel fyrir en lagaval var létt og hæfði tilefninu, ljúf tónlist harmonikkunnar fyllti svo upp í og gerði kvöldið að hinni ljúfustu skemmtun.   Kvöldinu lauk með dansi við undirleik harmonikkufélagsins. Er það mál manna er þarna voru að sérstaklega hafi vel til tekist.
 
Þann 4 nóvember n.k. ætlar karlakórinn að endurtaka skemmtunina ásamt harmonikkufélaginu með áherslum á írska tónlist.  Mun skemmtunin verða með svipuðu sniði og áður. Örn Garðarson mun sjá um matinn leynigestur verður á sínum stað og mun Kjartan Már Kjartansson sjá um veislustjórn.  Samkvæmt öruggustu heimildum hefur verið rætt um það innan karlakórsins að annað svona kvöld verði síðar í vetur og telja bjartsýnir menn að Stuðkvöld séu komin til að vera.

Aðgöngumiðar að skemmtuninni verða seldir í KK salnum að Vesturbraut 17 mánudaginn 30. okóber og miðvikudaginn 1. nóvember klukkan 20:00 og er miðaverð 2900 krónur, eins verða miðar seldir við innganginn ef ekki verður þegar uppselt en síðast komust miklu færri að en vildu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024