Stuð hjá sextugum Steina
Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík, fagnaði sextugsafmæli nýlega. Hann bauð til veislu á hótelinu þar sem á fimmta hundrað manns mættu til að fagna með honum og fjölskyldunni.
Steinþór notaði tækifærið og kynnti um leið framkvæmdir á KEF SPA sem opnar á næstu mánuðum. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 800 m2 heilsulind og mjög vel útbúinni líkamsræktarstöð. Afmælisbarnið segir að eftir frekari stækkun gæti heilsulindin öll orðið um 2.500 m2 en hún er hugsuð jafnt fyrir hótelgesti, bæjarbúa og almenna ferðamenn. Valdimar söng nokkur lög og Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon spilaði undir afmælissöngnum sem gestir sungu með honum.
Fleiri myndir úr afmælinu má sjá í myndasafni neðar á síðunni.