Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stuð á Karlakórnum
Þriðjudagur 8. maí 2012 kl. 10:42

Stuð á Karlakórnum


Karlakór Keflavíkur er orðinn fastur þáttur í samfélaginu á Reykjanesi. Svo oft og við svo mörg ólík tækifæri hefur þessi hressi hópur karla þanið raddbönd sín til að gleðja aðra og skapa stemmningu. Og ekkert lát varð á því á tónleikum þeirra s.l. mánudag í Hljómahöllinni. Grunur leikur á að meiri kraftur og hiti hafi verið á þessum tónleikum en endranær þar sem um kveðjutónleika fyrir stjórnandann til átta ára, Guðlaug Viktorsson var að ræða.


Sannarlega stóðu tónleikar þessir undir fréttinni um stórtónleika. Guðlaugur í meiri ham en nokkru sinni og kórinn fylgdi svo sannarlega. Það reynir á að syngja lög úr West Side Story eða eftir Leonard Bernstein en körlunum tókst ótrúlega vel að skila þessum erfiðu lögum á áheyrilegan hátt til fjölmargra gesta. Hafi einhverjir haldið að þar með væri hápunktinum náð þá átti Pílagrímakórinn eftir Tannhauser eftir að hljóma með tilheyrandi gæsahúð. Er mér til efs að kórfélagar hafi áður lagt sig jafn mikið fram um að skila samstilltu og áheyrilegu verki. Enda var salurinn heldur betur með á nótunum – grun hef ég um nokkur lög af gæsahúð hafi þar orðið til. Einsöngvara fékk kórinn til liðs við sig, þau Einar Clausen og Þórdísi Borgarsdóttur. Með einlægri og fallegri „heyr mína bæn“ skaust upp á himininn enn ein söngstjarnan á Suðurnesjum. Einar Clausen var ekki einhamur hvort heldur var í ítölskum stemmum eða íslensku poppi. Samleikur einsöngvara og kórs var fagmannlegur og leikinn af slíkri alúð að úr varð stórbrotinn heild. Undirleikur Jónasar Þórs á slaghörpuna hélt mönnum að melódíunni af kostgæfni.


En Karlakór Keflavíkur ræðast ekki bara á stóru verkin. Hann leikur sér líka að „léttmetinu“. Þekktir slagarar og dægurlög öndvegishöfunda hleyptu enn frekara fjöri í kórinn og ekki síður hinn lifandi stjórnanda. Er ekki laust við að salurinn hafi allur verið farinn að iða undir fjörinu og klappaði duglega í lokin.


Óhætt er að segja að Guðlaugur Viktorsson skilji eftir kraftmikinn kór og óskandi að arftaki hans haldi uppi merkinu. Kveðjutónleikarnir voru besta sönnun þess hve vel Guðlaugur hefur haldið um sprotann með hinum söngelsku drengjum KK. Þeir sem voru svo ólánsamir að missa af tónleikum Karlakórsins á mánudag geta hrósað happi því þeir verða endurteknir í Hljómahöllinni kl. 20:30 fimmtudaginn 10. maí.


Ég þakka kórnum frábæra kvöldstund.

Hjálmar Árnason.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024