Stubbasport í Akademíunni
Íþróttaakademían mun næstkomandi laugardag, 25. ágúst, fara af stað með íþróttanámskeið fyrir káta stubba á aldrinum 18 mánaða til 6 ára.
Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, verkefnastjóri í Íþróttaakademíunni segir að mikil þörf hafi verið fyrir íþróttaskóla barna í Reykjanesbæ og þá sérstaklega fyrir yngstu börnin. „Stefna Stubbaakademíunnar er að námskeiðin séu markviss, fjölbreytt og skemmtileg og höfum við fengið til liðs við okkur frábæra leiðbeinendur,“ segir Gunnhildur.
Námskeiðin verða uppbyggð með því markmiði að auka alhliða þroska barnanna og það gerum við með fjölbreyttum íþróttaæfingum, söng og leikjum. Eftir því sem börnin eru eldri eykst erfiðleikastigið.
Gunnhildur segir einnig mjög mikilvægt að fyrstu stundir barnsins í skipulagðri hreyfingu séu jákvæðar og skemmtilegar þar sem það stuðlar að jákvæðu viðhorfi þess til íþrótta í framtíðinni og því sé Stubbaakademían frábær staður til að hefja íþróttaiðkun.
Námskeiðin í Stubbaakademíunni eru í 8 vikur og mæting er einu sinni í viku, á laugardagsmorgnum.
Fyrsta námskeiðið hefst 25. ágúst og stendur til 13. október.
Aldurshóparnir eru þrískiptir sem hér segir:
Sportstubbar (18 mán til 3ja ára): Kl. 09:00 – 09:50
Kraftstubbar (3-4 ára / árg. 2003-2004): Kl.10:00 – 10:50
Þrekstubbar (5-6 ára / árg. 2001-2002): Kl.11:00 – 11:50
Foreldrar Sportstubba eru með þeim í tímum en foreldrar Kraftstubba og Þrekstubba mæta aðeins með þeim í fyrsta tímann.
Allir krakkar fá safa og ávexti í lok hvers tíma og viðurkenningarskjal að námskeiði loknu.
Frekari upplýsingar um námskeiðið, leiðbeinendur og skráningu fást á heimasíðu Akademíunnar með því að smella hér.