Strandmenningarhátíð í Grindavík alla helgina
Stærsta Sjómanna- og fjölskylduhátíð landsins, strandmenningarhátíðin Sjóarinn síkáti, verður haldin í Grindavík alla helgina. Dagskráin er óvenju glæsileg þetta árið og er lögð áhersla á að eitthvað sé við allra hæfi en mest áhersla er lögð á dagskrá fyrir börnin.
Vert er að vekja sérstaka athygli á kvöldskemmtunum á hátíðinni, Bryggjuballinu á föstudagskvöld, Grindavíkurblús í Kvennó, stórdansleik í íþróttahúsinu og öllum dansstöðum á laugardagskvöldið og hátíðinni lýkur með stórtónleikum í íþróttahúsinu á sunnudagskvöld.
Undirbúningur fyrir Sjóarann síkáta stendur yfir allt árið en endanleg dagskrá var gefin út nú í vikunni.
Á föstudagskvöldið milli kl. 20:30 og 01:00 er bryggjuballið stærsti viðburðurinn, þar sem hljómsveitin Buffið skemmtir. Þá mætir Eiríkur Hauksson á svæðið og nokkrar aðrar stórar sveitir koma og troða upp. Tónlistaruppákomur eru einnig víðar um bærinn.
Dagskrá laugardagsins hefst með sundmóti og golfmóti. Boðið er í stafgöngu á laugardagsmorgninum, auk þess sem sýningar opna, m.a. á myndlist, ljósmyndum og blómalistakona mun sýna verk sín.
Skemmtisigling verður frá höfninni kl. 13 á laugardag og í kjölfarið fylgir kappróðrakeppni. Þeir sem vilja geta látið draga sig á sjópulsu. Þá verða leiktæki við verslunarmiðstöðina, húsbíla- og hjólhýsasýning í bænum, Slysavarnadeildin Þórkatla með candiflos og margt fleira.
Bifhjólaklúbburinn Grindjánar ætlar að setja svip sinn á hátíðina á laugardag og við LukkuLáka verður risaútigrill þar sem heilu skrokkarnir verða grillaðir. Grindavíkur Blues verður í Kvennó og á laugdardagdskvöldinu verða fyrirlestrar í Saltfisksetrinu um hjátrú og drauga. Lokadagskrá laugardagsins er dansleikur í íþróttahúsinu með hljómsveitinni Á móti sól og Magni mun sjá um fjörið.
Sunnudagurinn er stærsti dagur hátíðarinnar. Strax eftir hádegið verður sjómannamessa í Grindavíkurkirkju sem hefst kl. 13 en klukkustund síðar tekur við umfangsmikil dagskrá á hafnarsvæðinu fyrir alla fjölskylduna. Leiktæki eru einnig víða um bærinn, sýningar opnar, kaffihlaðborð í grunnskólanum og mikil dagskrá fyrir börnin.
Á sunnudagskvöldinu lýkur svo dagskránni með stórtónleikum í íþróttahúsinu þar sem Dúndurfréttir og Eiríkur Hauksson leika lög goðsagna tónlistarheimsins.
Þá verður söguratleikur í tengslum við hátíðina, þar sem glæsileg verðlaun eru í boði, s.s. 15 kg. af saltfiski, sjófrystur fiskur og humar í 1. Verðlaun.
Dagskrá Sjóarans síkáta má nálgast á vef Grindavíkurbæjar, grindavik.is en þar er ítarlega farið yfir dagskránna og þar má sjá allar tímasetningar og kort sem sýnir staðsetningu helstu viðburða.