Strandgönguhópurinn brá sér norður í land
Strandgönguhópurinn brá undir sig betri fætinum og fór í fjögurra daga gönguferð um Fjörður um síðustu helgi.
Fjörður kallast svæðið sem liggur á milli Skjálfanda og Eyjafjarðar. Það voru fjórtán göngugarpar úr Strandgönguhópnum sem lögðu af stað frá Hvalvatnsfirði í sólskini og blíðu, gengið var að Þönglabakka og gist þar. Næsta dag var haldið af stað í þokuslæðingi og gengið til Keflavíkur, þótti Keflvíkingum það góður og fallegur staður! Þar var gist aðra nóttina. Þriðji dagur var frekar blautur en göngugarpar tókust á við hann með sól í hjarta og gengu yfir Uxaskarð að Látrum þar sem gist var síðustu nóttina. Á fjórða degi var gengið með Látrakleifum til Grenivíkur þar sem hópurinn komst í heitt bað. Endaði ferðin með glæsilegri veislu sem Fjörðungar héldu á Grenivík um kvöldið. Leiðsögumaður var Björn Ingólfsson fyrrverandi skólastjóri, sagði hann sögur og fór með vísur á þann veg að fólkið sem bjó á þessum stöðum stóð ljóslifandi hjá okkur. Það var göngu-þreyttur og sæll hópur sem lagði af stað heimleiðis eftir vel heppnað frí.
Ferðin var á vegum Fjörðunga á Grenivík, þeir bjóða upp á slíkar ferðir með fullu fæði og hestatrússi (hestar bera allan farangur). Hestasveinarnir sem eru miklir göngugarpar sjá um alla matseld og trúss. Þeir leggja síðastir af stað frá svefnstað og eru á undan hópnum í næsta næturstað og eru jafnvel búnir að elda þegar hópurinn kemur loks á áfangastað. Hægt er að fá upplýsingar um ferðir Fjörðunga á www.fjordungar.com
Framundan hjá Strandgönguhópnum.
27. júlí, verður gengið í Seltó og endað við Eldborg (við Höskuldarvelli) Seltó er gróðurvin sem varð eftir þegar Afstapahraun rann.
17. ágúst þá verður gengin ströndin frá Garði til Sandgerðis eða öfugt, það mun fara eftir vindátt hvoru megin verður byrjað.
27. ágúst verður lokagangan í sumar, þá verður gengin gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiði í fylgd Björns Pálssonar sem er sérfróður leiðsögumaður frá Hveragerði. Gengið verður til Hveragerðis þar sem bíður okkar matur frá Kjöt og Kúnst. Þeir sem áhuga hafa á að koma með í lokagönguna skrái sig hjá Nanný í síma 893 8900.
Kom þetta fram á vef Reykjanesbæjar