Strandblak og sjósund vinsælt á Garðskaga
„Aukningin er gífurleg,“ segir Kristinn Ólafsson sem sér um rekstur Byggðarsafnsins og tjaldstæðisins á Garðskaga þegar hann er spurður um það hvort hann hafi orðið var við aukningu í heimsóknum ferðamanna í sumar. „Það var gott í fyrra en ég aukningin er orðin miklu meiri, því get ég alveg lofað.“ Kristinn segir vera aukningu á heimsóknum Íslendinga á tjaldstæðið en auðvitað eru útlendingar í miklum meirihluta. Sérstaklega eru húsbílahópar duglegir í því að heimsækja svæðið að hans sögn.
Kristinn segir það vera verulega vinsælt að stinga sér til sunds við Garðskagann og hafi aldrei fleiri stundað sjósund þar en einmitt núna í sumar. „Það var talað um það í fyrra að bæta aðstöðuna fyrir sjósundið en það hefur lítið gerst í þeim málum enn sem komið er,“ segir Kristinn. Einnig hefur hann verið var við það að strandblakvöllurinn sé mikið notaður, ekki síst vegna veðurblíðunnar sem hefur verið í sumar.
Víkurfréttir verða með ítarlega umfjöllun um ferðasumarið á Suðurnesjum í næsta blaði sem kemur út á fimmtudag.