Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Strandarganga  um páska
Föstudagur 25. apríl 2003 kl. 09:54

Strandarganga um páska

Vorið skartar sínu fegursta og sumarið á næsta leiti. Brátt fer að verða bjart allan sólarhringinn og geð manna lyftist með sólinni. Nú fara tímar gönguferðanna að renna upp.
Gönguleiðin frá Hvalsneskirkju og inn að Sandgerði er mjög falleg, sérstaklega þegar fjaran er gengin. Á þessum tíma ársins eru fuglarnir að safna kröftum eftir langt flug frá framandi löndum. Þeir safnast saman í fjörunni og byggja upp forða - gera sig klára fyrir varpið. Lyktin af salti, þangi og náttúrunni sjálfri liggur í loftinu og göngumenn teiga þetta heilnæma loft að sér. Gönguleiðin er um 6 kílómetra löng og nokkuð greiðfær. Á leiðinni er æðarvarp og er svæðið friðlýst yfir sumarið og bannað að ganga fjöruna á stuttum kafla. Þegar komið er að þessu svæði er gengið upp fyrir æðarvarpið og það er gaman að horfa á kollurnar vappa um svæðið í leit að hentugu hreiðurstæði. Eins gott að stæðið verði gott því þar munu þær liggja næstu vikurnar. Töluvert mannlíf er á leiðinni - sumarbústaðafólk að gera klárt fyrir sumarið og minkaveiðimaður að störfum. „Nei, taktu frekar mynd af hundinum“ sagði hann þegar ljósmyndarar Víkurfrétta óskuðu eftir því að fá að taka mynd af honum. Hundurinn virtist jafn myndafælinn og eigandinn - hljóp í burtu þegar myndavélin var munduð.
Í sumarblaði Víkurfrétta verður ferðasagan sögð til fulls.

Á leið á sjóinn
Ólafur Hákon Magnússon verður 84 ára gamall í sumar. Hann býr ásamt konu sinni Svölu Sigurðardóttur að Nýlendu I í Hvalsneshverfi fyrir utan Sandgerði. Hvalsneskirkja þar sem Hallgrímur Pétursson jarðaði Steinunni dóttur sína stendur nálægt bænum og fjörulyktina leggur um svæðið. Þegar blaðamenn Víkurfrétta voru á gangi í fjörunni frá Hvalsnesi inn að Sandgerði um páskana gengu þeir fram á Ólaf þar sem hann var að dytta að bátnum sínum Hákoni Tómassyni.

Ólafur eða Hákon eins og hann er jafnan kallaður hefur búið alla sína tíð að Nýlendu og er hann þriðji ættliðurinn sem býr að bænum, en báturinn er nefndur eftir afa hans sem bjó þar. Hákon hefur stundað sjóinn lengi og þá aðallega á sumrin. „Við vorum með skepnur hér líka en maður fór á sjóinn á sumrin og var eitthvað fram á haustið.“
Hákon var nýbúinn að færa bátinn niður í fjöruna og ætlaði að setja hann á flot á annan í páskum. Báturinn er sjósettur með gamla laginu og beið þess að komast á flot á flóði. Hákon sagði að hann þyrfti að fara stutt frá landi.
„Ég þarf ekki að fara nema 15-20 metra frá landi og þar legg ég netin. Fiskiríið er misgott og það var lélegt í fyrra því tíðin var slæm. Vonandi verður það betra í sumar,“ segir Hákon og honum er ekki til setunnar boðið, sest upp í dráttarvélina og ekur upp fjöruna um leið og hann kveður ferðalanga.

VF-ljósmynd/Hilmar Bragi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024