Strætó er seinn á ferð
Komið þið sæl kæra bæjarstjórn.
Emilía heiti ég og er nemandi í 10. bekk Heiðarskóla. Ég ætla að ræða við ykkur um málefni strætó og þær úrbætur sem ég tel að þurfi að gera þar.
Ég veit að þetta málefni hefur verið margoft til umræðu áður en það er ekki að ástæðu lausu vegna þess að þetta er hlutur sem snertir marga bæjarbúa og þar á meðal mig.
Eitt stærsta vandamálið er að strætó er nánast alltaf seinn, sérstaklega um miðjan dag þegar börn og unglingar eru t.d á leiðinni heim úr skólanum og á leið í tómstundir.
Það að strætó sé svona seinn getur valdið óþægindum og orðið til þess að fólk verði of seint á þá staði sem það er að fara. Ég er nemandi í tónlistarskólanum og bý í Heiðarhverfinu og treysti þess vegna mikið á strætó til að koma mér á milli staða og hef margoft lent í því að mæta allt of seint í tíma í Tónlistarskólanum. Hef meira að segja misst af tíma þar einfaldlega út af því að strætó var ekki á réttum tíma.
Eftir klukkan 15:30 keyrir strætó líka upp á Iðavelli og þess vegna er skiljanlegt að hann verði aðeins of seinn en það að hann verði oft allt að 10 mín. of seinn, jafnvel áður en hann keyrir upp á Iðavelli, er ekki nógu gott.
Þess vegna vil ég að strætókerfið verði endurskoðað og fundið verði leið til að bæta úr þessu. Ég vil einnig að bætt verði við kvöldferðum. Strætó fer sinn síðasta hring klukkan 20:00 virka daga og klukkan 18:00 á laugardögum og þetta er einfaldlega of snemmt.
Samkvæmt lögum mega krakkar á aldrinum 13-16 ára vera úti til klukkan 22.00 á kvöldin og auðvitað væri það mjög gott að hafa þann valkost að geta tekið strætó þangað til að útivistartíminn er búinn.
Í stuttu máli sagt vil ég að strætókerfið verði endurskoðað og fundin verði leið til þess að strætó verði stundvísari og að bætt verði við kvöldferðum.
Emilía Björt Pálmarsdóttir.