Stórtónleikar Forskóladeildar
Þriðjudaginn 6. mars stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stór-tónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkjar grunnskólanna (7 ára börn) ásamt Lúðrasveit T.R. og einni af rokkhljómsveitum skólans.
Fyrri tónleikarnir eru kl.17 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla, Akurskóla – stofum við Dalsbraut, Háaleitisskóla og Holtaskóla.
Seinni tónleikarnir eru kl.18 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Heiðarskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.
Hvorir tónleikarnir um sig taka um 30 mínútur. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Forskóladeildin hefur um árabil staðið fyrir tónleikahaldi einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni. Á fyrstu tónleikunum voru það einungis um 40 forskólanemendur sem léku sem gestir með lúðrasveitinni á tónleikum í Kirkjulundi, en strax árið eftir var ákveðið að fara með tónleikana á milli allra grunnskólanna þar sem forskólinn væri í fyrirrúmi og hafa aðra hljómsveit með auk lúðrasveitarinnar, sem hafa ýmist verið rokkhljómsveit, trommusveit eða strengjasveit.
Þessu fyrirkomulagi var haldið þar til fyrir þremur árum, að ákveðið var að fara ekki í grunnskólana með tónleikahaldið, heldur halda tvenna tónleika í Stapa. Almenn ánægja hefur verið með það fyrirkomulag og forskólatónleikarnir verða því með sama sniði nú. Á tónleikunum koma fram alls um 290 börn og unglingar, þar af um 260 forskólanemendur. Allir eru velkomnir.