Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stórtenórinn Kristján Jóhansson syngur í Keflavíkurkirkju
Laugardagur 12. desember 2009 kl. 11:07

Stórtenórinn Kristján Jóhansson syngur í Keflavíkurkirkju

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég læt ekki mitt eftir liggja þegar verkefnið er brýnt. Ég hefði komið syndandi ef ég hefði þurft þess,“ sagði stórtenórinn Kristján Jóhannsson léttur í bragði í samtali við Víkurfréttir en hann mun syngja á aðventukvöldi Keflavíkurkirkju á sunnudaginn til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja.

„Ég er nú gamall karlakórsmaður og það verður gaman að taka lagið með ykkar góða kór. Með mér mun einnig koma einn efnilegasti tenór landsins, Rúnar Þór Guðmundsson en hann er í læri hjá mér í söngskóla míns gamla meistara Dementz þar sem ég starf nú. Við hlökkum til að mæta enda á ég vini á Suðurnesjum sem ég kynntist á menntaskólaárunum á Akureyri. Við ætlum að syngja jólalög og svo með Karlakór Keflavíkur,“ sagði Kristján.
Kristján fagnaði nýlega þrjátíu ára óperuafmæli en nýkominn heim til Íslands eftir 33 ára veru á Ítalíu. Hann hélt tónleika fyrir fullu húsi í Háskólabíói um síðustu helgi og þenur raddböndin, nú sem aldrei fyrr.

Þú segist eiga vini á svæðinu en það er langt síðan þú söngst hér síðast?
„Já, ég á góða vini sem ég kynntist fyrir norðan í menntó. Ég held ég hafi síðast sungið í íþróttahúsinu í Keflavík á einhverri kratasamkomu fyrir hana tengdamóður mína (Ragnheiði Guðmundsdóttur).“

„Ég vissi ekki að staðan væri svona slæm á svæðinu í atvinnumálum og við verðum því að leggja málum lið.“

Þú ert nýkominn heim eftir langa dvöl á Ítalíu?
„Já, eftir þrjátíu og þrjú ár. Kreppan er líka að bíta þar þó svo hún hafi ekki alveg verið svona áberandi. Ítalir fara sér hægar í öllu en við og þess vegna hafa þeir ekki fundið jafn sterkt fyrir ástandinu þó þeir hafi alls ekki sloppið. Við hjónin erum komin í störf hér heima. Ég hjá söngskóla Dements og Jóna kona mín er komin í MBA nám. Tólf ára dóttir okkar er ánægð að vera komin heim en hún hefur alið manninn á Ítalíu. Tveir eldri synir okkar eru enn á Ítalíu. Við erum mjög sátt við þetta og erum sæl og glöð hér heima. Það er gaman að lifa,“ sagði Kristján hress að vanda.

Sigfús Ingvason, prestur í Keflavíkurkirkju langaði að fá Kristján til að syngja í kirkjunni en þeir voru nágrannar á Akureyri. Eftir að hafa fengið símanúmerið hjá honum hringdi hann í kappann. „Kristján tók mjög vel í erindið og vill styrkja Velferðasjóðinn og tekur ekkert fyrir að koma fram. Ég vona bara að það verði fjölmenni í kirkjunni. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum svona góða gesti,“ sagði Sigfús.

Það hefur verið mikið fjör í Keflavíkurkirkju á aðventunni, söngleikurinn „Kraftaverk í Betlehem“ verður sýndur í síðasta sinn um helgina en svo hafa verið skemmtileg aðventukvöld undanfarna sunnudaga. Myndin hér að ofan var tekin á fyrsta kvöldinu.