Stórtenór hannar stærstu fiskeldisstöð landsins
Rúnar Þór Guðmundsson, stórtenór og byggingafræðingur, flutti til baka til Reykjanesbæjar ásamt fjölskyldu fyrir þremur árum. Í kjölfar efnahagshrunsins flutti fjölskyldan til Noregs þar sem þau störfuðu og bjuggu í fjögur ár, Rúnar sótti sér síðan menntun í byggingafræði í Horsens í Danmörku áður en fjölskyldan hélt heim aftur. Í Innri-Njarðvík hefur fjölskyldan komið sér vel fyrir í húsi sem hann hannaði og byggði sjálfur. Rúnar Þór stendur í stórræðum þessa dagana þar sem hann er hluti af stóru hönnunarteymi að byggja stærstu land fiskeldisstöð landsins í Auðlindagarðinum á Reykjanesi.
Hluti af stóru teymi
Rúnar Þór réð sig til starfa hjá Samherja um síðustu áramót eftir að hafa starfað hjá Verkfræðistofu Suðurnesja frá árinu 2018. Hjá Samherja er hann hluti af stóru teymi sem hefur það hlutverk að hanna fiskeldisstöð sem kemur til með að rækta lax á landi. Stöðin verður í Auðlindagarðinum á Reykjanesi í nálægð við virkjun HS Orku. „Mitt hlutverk er að safna saman upplýsingum frá verk-, fiskeldis-, flæðisverk- og líffræðingum sem eru í hönnunarteyminu og búa til þarfagreiningu, setja upp grunnplan og teikna mannvirkið. Verkefnið er stórt og flókið, margar fræðigreinar koma að þessu ferli sem hófst um áramótin síðustu, stefnt er að skóflustungu að fyrsta áfanga haustið 2022,“ segir Rúnar Þór.
Gert er ráð fyrir því að eldisstöðin taki til starfa tveimur árum síðar og byggist síðan jafnt og þétt upp í fulla stærð á nokkrum árum eftir það. Í fullri stærð verður eldisstöðin 40 þúsund tonn sem gerir hana að þeirri stærstu á Íslandi.
Tölvugerð mynd af áformuðu landeldi Samherja fiskeldis á Reykjanesi.
Fjórða iðnbyltingin í byggingarfræðum
Rúnari Þór fannst þetta spennandi verkefni þegar Samherji auglýsti eftir byggingafræðingi á sínum tíma. „Unnið er í kerfi sem kallast BIM – Building information Modeling sem gerir manni kleift að hanna bygginguna í þrívídd og magntaka alla byggingarhluta um leið. Þetta kerfi lágmarkar alla árekstra sem gætu komið upp í hönnunar- og byggingarferlinu og gefur einnig tækifæri á því að skoða ferlið í þrívíddar ljósmyndum og lifandi myndefni“.
Umhverfisvæn fiskeldisstöð og fjölbreytt störf verða til
Samherji hefur mikla reynslu af lax- og bleikjueldi hér á landi, rekur m.a. tvær aðrar stöðvar á Reykjanesinu, annars vegar við Grindavík og hins vegar við Voga. „Aðstæður á Reykjanesi henta vel fyrir landeldi á fiski, við getum m.a. nýtt frárennslisvatn frá virkjun HS Orku, sem notað er til að kæla túrbínur Reykjanesvirkjunar, til að láta fiskinn vaxa hraðar. Kjörvaxtahitastig lax er tíu til tólf gráður. Starfsemin passar einnig vel inn í markmið Auðlindagarðsins sem byggir á sjálfbærni þ.e. að geta nýtt afurð frá öðru fyrirtæki og eins orðið valmöguleiki fyrir starfsemi annars fyrirtækis sem gæti nýtt þeirra úrgang. Þá felast ýmsir möguleikar í frárennsli fiskeldisstöðvarinnar, svokölluðum Bíómassa.
Fiskeldi á landi er umhverfisvænna en sjóeldi, ferlið er lokað og mengun minni. Tækifærin sem felast í samstarfi fyrirtækja eru einnig fjölmörg og mörg þeirra ónýtt. Ljóst er að með tilkomu fiskeldisstöðvar af þessari stærðargráðu hér á Reykjanesi verða til mörg og fjölbreytt störf sem auka við flóru atvinnugreina á okkar svæði,“ segir tenórinn.
Nýtir tækifærin til að syngja
Rúnar Þór er einnig með betri tenórum á landinu og reynir eins og hann getur að syngja við hvert tækifæri sem gefst, tók það m.a. fram í starfssamningi sínum að hann þyrfti stundum að geta brugðið sér frá til að syngja.
„Heimsfaraldurinn setti auðvitað strik í reikninginn í sönginn hjá mér eins og hjá mörgum öðrum listamönnum en nú horfir til betri vegar og skemmtileg verkefni framundan,“ segir Rúnar Þór en meðal þess sem framundan er hjá honum eru nýárstónleikar hans, Alexöndru Chernyshovu og Helga Más Hannessonar en þeir hafa skapað sér sess í menningarlífi Reykjaness. Tónleikarnir verða í upphafi nýs árs í Ytri-Njarðvíkurkirkju og að þessu sinni fá þau Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem gesti á tónleikana.