Stórsýning í Reykjaneshöll
Hátíðin Frístundasumar í Reykjanesbæ var sett í hádeginu í dag en í Reykjaneshöll er nú iðandi mannlíf á stórsýningu tómstunda-, menningar- og æskulýðsfélaga í Reykjanesbæ ásamt handverkssýningu og fyrirtækjakynningum.
Meðal þess sem er nú hægt að kynna sér í Reykjaneshöll eru mótorhjól frá vélhjólaklúbbnum Örnum, skákmót verður haldið á morgun, flugmódel, ljósmyndasýning hjá ljósmyndaraklúbbnum Ljósopi, skátarnir kynna starfsemi sína og er hægt að spreyta sig á kassaklifri hjá þeim, fornbílafélag Suðurnesja sýnir glæsikerrur á öllum aldri, sæþotur, lifandi tónlist, ferðatæki, pílukast, kassaklifur, listamenn og handverksfólk sýnir afurðir sínar og margt fleira.
Aðgangur er ókeypis og verður opið í dag til 17:00 og á morgun frá 13:00 - 17:00.
Einnig verður frítt inn á öll söfn Reykjanesbæjar og í Vatnaveröld.
VF-myndir/Þorgils - Frá hátíðinni í dag