Stórleikur í fótboltanum og húsbílaheimsókn í Sandgerði
Það má búast við mikilli stemmningu í Sandgerði í dag þegar heimamenn og Njarðvíkingar eigast við í 2. deild knattspyrnunnar í leik sem mun skera úr um það hvort liðið vinnur sig upp í 1. deild.
Leikurinn hefst á Sparisjóðsvellinum kl.14 og má búast við fjölda áhorfenda á þennan skemmtilega nágrannaslag. Auk knattspyrnuáhugamanna munu húsbílaeigendur fjölmenna til Sandgerðis í sjöundu og síðustu ferð Félags húsbílaeiganda á þessu sumri.
Áætlað er að um 80-100 húsbílar verði í bænum um helgina að því er fram kemur á Sandgerðisvefnum 245.is. Á laugardaginn mun húsbílafélagið bjóða upp á kjötsúpu klukkan 12:30 í Samkomuhúsinu og um leið verður opinn markaður þar sem félagsmenn munu selja sínar vörur. Fjölmargir félagsmenn séu að hanna mjög fallega hluti og því sé um að gera fyrir Sandgerðinga að kíkja á markaðinn.
Einn af forsvarsmönnum félagsins segir í samtali við 245.is að félagsmönnum hafi fundist tilvalið að fara lokaferð sína til Sandgerðis í ár, þar sem komið sé fínt tjaldstæði með glæsilegri aðstöðu og svo sé einnig gott pláss í kringum Samkomuhúsið. Á laugardagskvöldið verður síðan dansleikur.
Myndin er frá vel heppnuðum Sandgerðisdögum í ágúst.