„Stórkostlegt að fá að upplifa þetta“
segir Kjartan Már Kjartansson, stjórnarformaður Hljómahallar.
„Tónlistarskóli var stofnaður hér árið 1957, fyrir tæpum sex áratugum. Skólarnir í Keflavík og Njarðvík hafa frá þeim tíma verið í bráðabirgðahúsnæði. Menn eru búnir að vera að bíða eftir þessu í tæp 60 ár og nú er dagurinn; við erum að fá endanlegt sérbyggt hús fyrir tónlistarkennslu,“ segir Kjartan Már Kjartansson, stjórnarformaður Hljómahallar í viðtali við Víkurfréttir.
„Ég er í skýjunum. Þetta er stórkostlegt að fá að upplifa þetta og fá að taka þátt í þessari uppbyggingu,“ segir Kjartan Már þegar hann er spurður um upplifun sína af Hljómahöllinni. Kjartan efast ekki um að Rokksafn Íslands eigi eftir að draga að fjölda ferðamanna. Hann nefnir íslenskt tónlistarfólk í heimsklassa eins og Björk, Of Monsters And Men og Ásgeir Trausta og segir að ferðamenn vilji örugglega kynna sér söguna og úr hvaða jarðvegi þetta tónlistarfólk er sprottið.