Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stórgóð Jólasaga Leikfélags Keflavíkur
Fimmtudagur 1. desember 2011 kl. 15:10

Stórgóð Jólasaga Leikfélags Keflavíkur

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi á sunnudagskvöld Jólasögu Charles Dickens í leikstjórn Jóns Stefáns Kristjánssonar. Jólasaga er sígilt jólaleikrit en sagan kom fyrst út 1843 og hefur allar götur síðan átt góðu gengi að fagna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ráðist var í uppsetningu á Jólasögu eftir að Menningarráð Suðurnesja veitti Leikfélagi Keflavíkur styrk til uppsetningar á verki með þátttöku allra aldurshópa. Eins og segir í sýningarskrá Jólasögu var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur heldur taka fyrir eitt sígildasta ævintýri allra tíma. Verkið er magnþrungin saga sem sýnir okkur hversu mikið afl jólin hafa til að draga það besta fram í fólki.


Það er mikið lagt í uppfærslu Leikfélags Keflavíkur á Jólasögu. Þrjátíu og einn leikari tekur þátt í uppfærslunni og fjölmennt lið er einnig á bak við tjöldin. Mikið er lagt í leikmynd, lýsingu og hljóð. Þá bregður einnig fyrir skemmtilegum tæknibrellum í sýningunni þar sem leikmunir skjótast á miklum hraða um sviðið.


Aðalhlutverkið í sýningunni, Herra Scrooge, leikur Sölvi Rafn Rafnsson. Hann er einn af fjölmörgum nýliðum á sviðinu hjá Leikfélagi Keflavíkur. Það er hins vegar ekki að sjá á uppfærslunni að þarna séu margir að stíga sín fyrstu skref á sviði. Sölvi túlkar Herra Scrooge á skemmtilegan og sannfærandi hátt. Undirritaður fór á frumsýningu með það á bak við eyrað að þarna væru margir nýir á sviði. Smá vandræðagangur varð þegar sýningin átti að fara af stað því leslampi píanóleikarans hafði hrokkið úr sambandi. Þegar undirleikarinn hafði fengið sitt ljós og sýningin fór af stað kom fljótlega í ljós að áhyggjur af nýliðum voru óþarfar. Sýningin var óaðfinnanleg og það sem meira er, allur söngur skilaði sér vel um allan sal og efst í áhorfendapallana. Óskýr söngur hefur oft verið það sem dregið hefur niður sýningar sem þessar en aðstandendur Jólasögu hjá Leikfélagi Keflavíkur þurfa ekki að skammast sín fyrir frumsýninguna á Jólasögu.


Jólasaga er næstum tveggja tíma sýning sem segir frá nískupúkanum Herra Scrooge í aðdraganda jólanna og hvernig hann umgengst sína nánustu og fólkið sem verður á vegi hans. Andar vitja nískupúkans um nótt og gera honum ljóst hvernig hann hegðar sér og hvert stefni með sama áframhaldi. Þeim tekst að snúa honum til betri vegar og ævintýrið endar vel.
Leikarar Leikfélags Keflavíkur komast allir vel frá uppfærslunni á Jólasögu og fengu oft gott klapp á milli atriða í sýningunni og eins í sýningarlok. Þá hefur lýsing og hljóð mikið að segja í sýningunni og allt vinnur þetta saman að því að gera Jólasögu Charles Dickens að stórskemmtilegri sýningu sem allir hafa gott af að sækja nú á aðventunni. Ekki er ástæða til að telja upp einstaka leikara hér en óhætt að fullyrða að þeir stóðu sig allir með prýði og fá allar þær stjörnur sem eru í boði fyrir sinn leik.


Næsta sýning er á morgun, föstudaginn 2. desember kl. 20 en einnig eru sýningar á laugardag og sunnudag kl. 17 báða dagana. Sýnt er í Frumleikhúsinu við Vesturbraut og miðapantanir eru í síma 421 2540.


Hilmar Bragi Báðarson
fréttastjóri Víkurfrétta.


Fleiri myndir í myndasafni Víkurfrétta hér á vf.is