Stórglæsileg sýning í Andrews

Hún var stórglæsileg sýning Vox Arena, leikfélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem frumsýnd var í Andrews Theatre í gær í sönnum Burlesque stíl fullorðinssýninga í Bandaríkjunum á árum áður.
 
Leikstjórinn er ungur að árum og fyrrum nemandi skólans Brynja Ýr Júlíusdóttir sem hefur þó að baki mikla reynslu í leikhúsinu og hefur sýnt að henni er margt til lista lagt en hún er jafnframt höfundur leikgerðar auk þess að þýða lagatexta.
 
Dansinn setur mikinn svip á sýninguna og á Helga Ásta Ólafsdóttir danshöfundur mikið hrós skilið fyrir sína vinnu sem og hæfileikaríkir dansarar en þar þekkti maður marga nemendur hennar frá Danskompaní. 
 
Þær Perla Sóley og Tara Sól bera uppi aðalhlutverkin í sýningunni, og þar eru konur í miklum meirihluta, gaman að því. Þær eru hæfileikaríkar söngkonur báðar tvær þótt meira mæði á Perlu Sóley í sýningunni og maður hugsar bara með sér: Vá, hvaðan kemur allt þetta hæfileikaríka fólk? Það er greinilegt að það er unnið gott starf í grasrótinni fyrir ungt fólk á Suðurnesjum og það hefur fengið tækifæri til að rækta hæfileika sína sem er eitthvað sem við getum verið stolt af. Við erum nefnilega ekki bara íþróttabær.
 
Það er líf og kraftur á sviðinu allan tímann og öll umgjörð sýningarinnar er glæsileg, hvort sem það er ljósahönnun, búningar, förðun eða hljóð. Ég átti ekki von á slíkri fagmennsku á nemendasýningu en það sýnir nú bara fordóma mína.
 
Hvaða leikfélag sem er getur verið stolt af slíkri sýningu og ég hvet sem flesta Suðurnesjamenn til þess að mæta á Burlesque í Andrews theatre og njóta með öllu þessu hæfileikaríka unga fólki sem við eigum. Takk fyrir mig.
 
Dagný Maggýjar

Vf-myndir: Hilmar Bragi // Sjá einnig myndskeið neðst í fréttinni