STORÐ stígur á stokk
Hljómsveitin STORÐ er ein þeirra sveita sem eru að koma út úr bílskúrnum um þessar mundir en þau hafa nýtt Covid-tímann vel til æfinga og að semja efni. Föstudaginn þrettánda þessa mánaðar gaf STORÐ út sín fyrstu lög á streymisveitum, það eru lögin Blue on blue og Love me more. Hljómsveitin segir að lögin séu þau fyrstu af þrettán laga plötu sem sveitin er að leggja lokahönd á. STORÐ skipa þau Bjarni Geir Bjarnason á gítar, Logi Már Einarsson á bassa, Sturla Ólafsson á slagverk og Sigga Maya á míkrófón.
„Við munum gefa þetta út smátt og smátt og munum enda á að gefa þetta út sem eina heild. Við erum að reyna að draga fólk inn, halda því á tánum og búa til spenning,“ segir Sigga Maya, söngkona sveitarinnar. „Þetta er svona það sem er að gerast núna, við erum eiginlega að koma út úr skúrnum og eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast. Það er allt í gangi, við erum á fullri siglingu, bara að semja meira.“
Víkurfréttir litu inn á æfingu hjá STORÐ en framundan eru fyrstu tónleikar bandsins. Þeir verða haldnir á Fish House í Grindavík föstudagskvöldið 27. mai, þar sem frumflutt verður efni af komandi plötu. Á lagalistanum er blús og rokk og annað gaman segir í kynningu fyrir tónleikana. Blúsbandið The Tanks hitar upp fyrir tónleika með gullnum klassikerum og skemmtilegheitum. Aðgangur ókeypis.
Frumsamið efni
Hljómsveitin semur allt sitt efni sjálf og þau lýsa ferlinu þannig að Bjarni Geir semur hljómagang og Sigga Maya textana, því er svo kastað á Stulla og Loga sem taka lögin lengra. Samstarfsverkefni af bestu gerð þar sem allir setja sitt fingrafar á lögin.
Hvað eru þið búin að starfa lengi saman?
Nú líta hljómsveitarmeðlimir hver á annan og fara að tína saman hver byrjaði hvenær. „STORÐ er rúmlega eins árs í þessu formi,“ segja þau að lokum. „Við fórum hægt af stað, í Covid, og það var mikið hökt til að byrja með. Logi var síðastur inn.
Þið eruð að fara að halda ykkar fyrstu tónleika, eru fleiri tónleikar framundan?
„Já, þann 27. maí á Fish House í Grindavík verða fyrstu opinberu tónleikarnir okkar. Svo verðum við á blúskvöldi á Salthúsinu sem verður haldið á fimmtudeginum fyrir sjómannadagshelgina. Þar munum við koma fram í kompaníi við tvær aðrar hljómsveitir. GG blues og Ebeneser. Þeir eru náttúrlega pjúra blúsarar, svo reynum við að troða okkar stöffi með – kalla það blús og sjá hvað gerist. Sjáum hvort við fáum borgað eða hvað,“ segir Sigga Maya og Bjarni Geir bætir við: „Svona hugtök eru rosalega loðin og teygjanleg.“
Nánar verður spjallað við STORÐ í næsta tölublaði Víkurfrétta en að neðan má sjá stutt myndskeið frá æfingu sveitarinnar.