STORÐ gefur út sína fyrstu plötu
Hljómsveitin STORÐ er að gefa út sína fyrstu hljómplötu um þessar mundir. Hljómsveitin, sem er að mestu ættuð af Suðurnesjum, hefur unnið að plötunni síðustu tvö ár og fengið til liðs við sig mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki til að vinna að verkinu. Platan, sem er aðgengileg á öllum helstu streymisveitum, ber nafnið Black Waters og inniheldur tíu lög, öll samin af Bjarna Geir Bjarnasyni, gítarleikara, og söngkonunni Siggu Mayu. Auk þeirra eru meðlimir hljómsveitarinnar Sturla Ólafsson, slagverksleikari, og Logi Már Einarsson, bassaleikari.
Hljómsveitin skilgreinir sig sem fjölstefnuhljómsveit og á komandi plötu glittir í rokk, blús, prog, sækadelíu auk annars sem til hefur fallið, þar sem stungið er á kýli og horfst óhikað í augu við sjálfið, ástina og hin ýmsu sálar- og þjóðfélagsmein. Black Waters var að mestu hljóðunnin í Stúdíó Gott hljóð í Borgarnesi af Sigurþóri „Sissa“ Kristjánssyni.