Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stóra stundin í kvöld
Föstudagur 23. maí 2003 kl. 15:49

Stóra stundin í kvöld

Fegurðarsamkeppni Íslands fer fram í kvöld og er hún í beinni útsendingu á Stöð 2. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fegurðardrottning Suðurnesja er fulltrúi Suðurnesja í keppninni. Hún segir í samtali við Víkurfréttir að síðustu vikur hafi verið ansi annasamar. Steinunn stundar nám við Læknadeild Háskóla Íslands í sjúkraþjálfun þar sem hún kláraði próf fyrir um viku. Hún segir að þá hafi þungu fargi verið af sér létt enda hafi verið svolítið erfitt að sameina þetta tvennt en að sjálfsögðu hafi lesturinn gengið fyrir. „Við erum búnar að vera á daglegum æfingum síðustu þrjár vikur, ásamt myndatökum og fleiru. Það má eiginlega segja að það sé búið að vera allt of mikið að gera og ég verð að viðurkenna að ég hlakka mikið til að slaka á með fjölskyldu og vinum að þessu loknu“. Steinunn segir stemninguna í hópnum mjög góða. „Við hlökkum mikið til kvöldsins og erum orðnar mjög spenntar. Það er auðvitað smá stress í manni fyrir kvöldinu þar sem þetta er nú í beinni útsendingu en það þýðir lítið að hugsa um það. Aðalmálið er að vera maður sjálfur og þá gengur þetta vel“. Steinunn verður í sama hvíta kjólnum og hún var í ungfrú Suðurnes en hann er úr versluninni Flex á Laugarveginum.
Aðspurð um það hvort mikill munur sé á undirbúningi fyrir ungfrú Ísland og ungfrú Suðurnes segir Steinunn að undirbúningurinn sé að vissu leyti frábrugðinn. „Við erum búnar að vera mikið í myndatökum, upptökum og æfingum með Stöð 2 og fleira í þeim dúr enda er keppnin sýnd beint þannig að það er eins gott að allir viti hvar þeir eiga að vera“. Hún segir að þrátt fyrir stífar æfingar hafi stúlkurnar gert ýmislegt annað skemmtilegt saman. Þær hafa farið í kajakferð, grillað saman og borðað á Argentínu og Fjöruborðinu Stokkseyri svo eitthvað sé nefnt.
Steinunn segir sína persónulegu reynslu á fegurðarsamkeppni vera góða. „Ég hef fengið það sem ég vildi út úr keppninni og framhaldið verður spennandi. Ég fer fyrst og fremst með jákvæðu hugarfari í þessa keppni og svo ætla ég auðvitað að reyna að gera mitt besta, engin spurning um það“, sagði Steinunn að lokum.

Víkurfréttir vilja hvetja Suðurnesjamenn að fjölmenna að skjánum í kvöld og styðja við sína stúlku. Að loknu kjólaatriðinu verður símakosning sem gildir 30% af heildarúrslitum keppninnar og auðvitað eru Suðurnesjamenn hvattir til að nýta sér hana og vera duglegir við að hringja.

VF-mynd: SævarS
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024