Stór hetja í litlum líkama
Þann 14. október næstkomandi verða haldnir tónleikar til styrktar Aðalheiði Láru Jósefsdóttur sem bera yfirskriftina „stór hetja í litlum líkama.“ Eins og kunnugt er þá brenndist Aðalheiður mjög illa og var send á sérstaka brunadeild Ríkisspítala Danmerkur og mun hún þurfa á mikilli umönnun og læknisaðstoð að halda næstu árin.
Fjöldi listamanna hefur þegar staðfest þátttöku sína á tónleikunum og þar munu Rúnar Júlíusson og Bjarni Ara troða upp ásamt hljómsveitinni Espasio, Ladda, Friðriki Ómar og fleiri listamönnum. Ágóðinn af tónleikunum mun renna til Aðalheiðar ásamt hluta sem áætlaður er að fari til styrktar langveikum börnum. Samtökin Góðir punktar slógust í för með tónleikahöldurum en samtökin gefa aðgöngumiðana á tónleikana sem einnig eru afsláttamiðar sem hægt er að nota í verslunum og veitingahúsum.
Tónleikarnir verða haldnir þann 14. október í Stapa í Reykjanesbæ og mun húsið opna kl. 19.00 en tónleikarnir hefjast svo kl. 20.00. Miðaverð er kr. 2000.