Stofnfundur Listatorgs í Sandgerðisbæ á morgun
Atvinnumálaráð, Ferða- og menningarmálaráð og listafólk í Sandgerðisbæ boðar á morgun til fundar í Vitanum þar sem kynntar verða tillögur starfshóps sem miða að því að skapa aðstöðu til lista- og menningarstarfs í Sandgerði. Fundurinn er jafnframt stofnfundur Listatorgs, lista- og menningarfélags Sandgerðisbæjar.
Í atvinnumálaráði Sandgerðisbæjar hefur um tíma verið unnið að hugmyndum sem miða að því að skapa aðstöðu til lista- og menningarstarfs. Sérstakur starfshópur hefur svo unnið að því að vinna hugmyndunum framgang og hefur hann nú lagt fram tillögur sem m.a. hafa verið unnar í samvinnu við listafólk í bæjarfélaginu. Tillögurnar byggja á stofnun félags um listir og menningu sem hefur fengið heitið Listatorg.
Allt áhugafólk um listir og menningu í bæjarfélaginu er hvatt til að mæta á fundinn og gerast stofnfélagar. Fundurinn verður í Vitanum á morgun, þriðjudaginn 25. september og hefst kl. 20:30.
Mynd: Frá Sandgerði.