Stofna POWERtalk International í Reykjanesbæ
Um þessar mundir stendur til að stofna POWERtalk deild í Reykjanesbæ. Við náðum tali af einum meðlimi í þessum áhugaverðu samtökum.
Guðný Björg Kjærbo er ung kona sem býr í Reykjanesbæ og er meðlimur í POWERtalk deildinni Fífu í Kópavogi.
Hvað er POWERtalk International?
POWERtalk International eru alþjóðleg þjálfunarsamtök sem starfa í 22 löndum í fimm heimsálfum og bjóða upp á markvissa þjálfun í öflugum tjáskiptum svo sem ræðumennsku, félagsmálum, fundarsköpum og mannlegum samskiptum, ásamt skipulagningu og stjórnun, með sjálfsnámi og jafningjafræðslu.
Samtökin eru sjálfstæð og hvorki rekin í hagnaðar né góðgerðarskyni. Þau eru fjármögnuð með lágmarks félagsgjöldum einungis til að standa undir rekstri.
Hér á landi eru starfandi um 10 deildir víðs vegar um landið og eru fundir haldnir tvisvar í mánuði.
Sumir þekkja POWERtalk samtökin eflaust sem ITC eða Málfreyjur en Málfreyjur voru eitt sinn með deild hér á Suðurnesjunum.
Nú stendur til að stofna POWERtalk deild í Reykjanesbæ en kynningarfundur verður haldinn þann 6. nóvember kl. 20:00 á Kaffi Duus í Reykjanesbæ þar sem starfsemi POWERtalk verður kynnt og eru allir boðnir velkomnir, bæði karlar og konur. Gamlar Málfreyjur eru einnig sérstaklega boðnar velkomnar á þennan fund.
Hvers vegna ákvaðst þú að ganga í POWERtalk International?
Ég hafði vitað af samtökunum lengi þar sem móðir mín hafði starfað í POWERtalk deildinni Fífu í Kópavogi í fjölmörg ár. Það var einmitt móðir mín sem hvatti mig til þess að byrja í samtökunum og ég ákvað að slá til. Ég var búin að sjá hvað þjálfunin sem þar fer fram hafði styrkt móður mína mikið. Hún var allt í einu farin að halda ræður í alls kyns veislum sem var eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug að hún myndi gera.
Mér fannst frábært hjá henni að þora þessu og það hvatti mig til þess að ganga í samtökin. Mig langaði að öðlast öryggi og færni í að koma fram og segja mína skoðun.
Hvað hefur þú öðlast með starfi í POWERtalk?
Ég er núna búin að vera í samtökunum í rúmt ár og finn mikinn mun á mér. Ég er búin að fá góða þjálfun í að halda alls kyns ræður, t.d. tækifærisræður, áróðursræður og óundirbúnar ræður. Ég er búin að taka þátt í ræðukeppni, sem var mjög skemmtileg lífsreynsla og ég lærði mjög mikið af því. Einnig höfum við fengið góða þjálfun í fundarsköpum og notkun á skjávarpa. Stressið við að koma fram hefur minnkað heilmikið með æfingunni. Ég hef haft mjög gaman af þessum tíma í samtökunum og ætla mér að starfa þar áfram.
Ég mæli með POWERtalk því þar geta allir fengið verkefni við sitt hæfi og mikil áhersla er lögð á að veita persónulega þjálfun í vinsamlegu umhverfi. Hér eru allir á jafningjagrundvelli og tilbúnir að veita leiðsögn og miðla af sinni eigin þekkingu. Einnig sakar ekki að þessi þjálfun er á mjög hagstæðu verði þar sem samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni.
Ég hvet alla sem hafa áhuga á að styrkja sig í tjáskiptum, bæta sjálfstraust eða jafnvel kynnast skemmtilegum félagsskap að kíkja á fund hjá POWERtalk og kynna sér málið. Það er tekið vel á móti öllum og allir fundir eru opnir fyrir gestum. Nánari upplýsingar er hægt að fá á vefsíðunni powertalk.is.