Stöðugur rekstur lykilatriði
Tæplega fertuga Bústoð með samtals 20 starfsmenn frá upphafi.
Húsagna- og gjafavöruverslunin Bústoð var stofnuð í mars árið 1975 og aðeins 20 manns hafa starfað þar frá upphafi. Nýr verslunarstjóri, Björgvin Árnason og aðstoðarverslunarstjóri, Hildur Hlín Jónsdóttir, tóku við keflunum í ársbyrjun og eru hér með kynnt til leiks. Þau eiga bæði afmæli 4. október og segja það bara tilviljun í ráðningarferlinu.
„Þetta fyrirtæki hefur verið vel rekið í öll þessi ár. Það skiptir miklu máli því þess vegna getum við gefið viðskiptavinum okkar betri verð. Reksturinn er svo stöðugur,“ segir Björgvin. Árið 2010 voru færðar út kvíarnar og farið í gjafavörur og ljós. „Þessi breyting, sem gerð var af fyrrum stjórnendum, hefur orðið fyrirtækinu til uppdráttar og búðin gjörbreyttist. Við tökum því við mjög góðu búi og höldum áfram á þeim vegi sem stemmt var að.“
Með nýjum verslunarstjórnendum hefðu verið gerðar breytingar í gjafavöruúrvali. „Við höldum gömlum og góðum merkjum en höfum tekið inn ný merki eins og Eva Solo, Leonard og Kitchen Aid. Einnig höfum við gert áherslubreytingar í húsgagnahlutanum því með yngri stjórnendum kemur yngri markhópur. Við höldum sérstaklega vel upp á okkar fastakúnna, sem eru á ýmsum aldri, en reynum líka að höfða til yngra fólks, bæði varðandi verð og gæði,“ segir Björgvin og bætir við að lögð sé áhersla á lægra verð í stað þess að gefa afslætti.
Lægra verð en í Reykjavík
Bústoð selur töluvert af vörum út á land og til höfuðbrogarsvæðisins, að sögn Björgvins. „Við erum með lægra verð á flestum vörum en í Reykjavík. Við reynum að herja á okkar markað hér og kynna okkar verð fyrir Suðurnesjamönnum.“ Hildur Hlín bætir við: „Viljum fá fólkið hingað að kynna sér verð og gæði áður en það fer á höfuðborgarsvæðið.“ Verðið sé lægra vegna þess að miklu minni umgjörð sé hjá þeim en hjá stórum fyrirtækjum eins og t.d. Húsgagnahöllinni. á höfðuðborgarsvæðinu.
Flytja sjálf inn 97% af varningnum
Björgvin er fæddur og uppalinn í Keflavík en Hildur Hlín komi með ferskar áherslur og hefur reynslu af verslunum með smávöru- og gjafavöru, m.a. í Kaupamannahöfn. „Hildur stýrir gjafavöruflæðinu, þar á hún heima,“ segir Björgvin og Hildur tekur hlæjandi undir það. Þau stilla öllu upp og skreyta allt sjálf í sýningarsalnum, sem er 1600 fm. á þremur hæðum. Til viðbótar er svo 900 fm lager og þar er einn starfsmaður til viðbótar. „Við flytjum sjálf inn 97% af okkar vörum. Þannig náum við gríðarlegri hagræðingu og getum lækkað verðið, er það von okkar að suðurnesjabúar sjái sér hag í því að líta við hjá okkur og kynna sér þar sem við höfum uppá að bjóða“ segja þau að lokum.