Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stoðkennarinn nýtur æ meiri vinsælda
Föstudagur 27. ágúst 2010 kl. 16:51

Stoðkennarinn nýtur æ meiri vinsælda

Stoðkennarinn er gagnvirkur námsvefur sem hefur notið æ meiri vinsælda meðal kennara, nemenda og foreldra hér á landi. Stoðkennarinn býður upp á námskeið og námsefni í stærðfræði, stafsetningu, málfræði, bókmenntum, ensku, dönsku og tölvunotkun. Hingað til hefur markhópurinn einkum verið nemendur unglingastigs og grunn­áfanga framhaldsskóla, en á næstu misserum mun Stoðkennarinn í ríkari mæli bjóða upp á námsefni fyrir miðstig.

Suðurnesjamaðurinn Starkaður Barkarson, einn af stofnendum Stoðkennarans, segir það eitt af höfuðmarkmiðunum að nýta það nýjasta í net- og tölvumálum. T.d. hafi vefurinn verið endurhannaður frá grunni í ár og aðlagaður að möguleikum netsins og þörfum nemenda, kennara og foreldra. Meðal nýjunga sem Starkaður nefnir eru m.a. umhverfi þar sem nemandi skilar inn stuttum ritgerðum sem kennari fer yfir í gagnvirku umhverfi og „hljóðver“ sem gerir nemendum kleift að skila inn upplesnum textum. Þetta einfaldar til muna vinnu kennarans og gerir allt nám markvissara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grunnskóli Grindavíkur og Holtaskóli hafa um árabil nýtt sér krafta Stoðkennarans og í ár verður Holtaskóli sérstakur samvinnuskóli vefjarins. Björn Víkingur, kennari við skólann til margra ára, segir vefinn hafa komið að góðum notum undanfarin ár.

„Forritið nýtist sem sjálfstætt ítarefni við annað námsefni þar sem efnisatriði þess smellpassa við efnisatriði kennslubókanna og námskrár,“ segir Björn. „Nemendur hafa einnig tekið Stoðkennaranum fagnandi og margir fengið útrás fyrir keppnisandann og námsmetnaðinn. Nemendur vinna við forritið bæði í skólanum og heima. Auðvelt er að setja nemendum fyrir ákveðin efnisatriði sem þeir eiga að hafa klárað fyrir tiltekinn tíma og auðvelt er að halda utan um allar niðurstöður varðandi árangur nemenda. Þannig hafa kennarar nýtt Stoðkennarann sem viðbót við flóruna í námsmatinu. Stoðkennarinn hefur því öðlast fastan sess í kennsluáætlunum og námsmati kennara á unglingastigi í Holtaskóla.“

Það sem greinir Stoðkennarann frá flestum öðrum námsvefjum er sú staðreynd að allt sem nemandi gerir er skráð til bókar. Þannig er hægt að nota vefinn á markvissan hátt, jafnt í skóla sem heima fyrir. Einnig bregst Stoðkennarinn ávallt við villum nemenda og útskýrir fyrir honum regluna sem hann braut. Að nota Stoðkennarann er því að mörgu leyti eins og að hafa kennara sér við hlið sem bæði fylgist með gengi þínu og leiðréttir villurnar.

Foreldrar fá frían aðgang að vefnum um leið og barn þeirra fær aðgang. Þeir geta því bæði skoðað og rifjað upp námsefnið og fylgst með gengi og virkni barna sinna. Foreldrar geta því tekið virkan þátt í námi barnanna og séð á einfaldan hátt hvar skórinn kreppir.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um vefinn með því að fara á www.stodkennarinn.is.