Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stóð fyrir útgáfu barnabókar um stam
Brynjari Emil Friðrikssyni fannst vanta barnabók þar sem stam er meginþemað, að hans frumkvæði réðst Málbjörg í útgáfu barnabókarinnar Þegar Óliver talar! VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 3. nóvember 2022 kl. 11:02

Stóð fyrir útgáfu barnabókar um stam

Brynjar Emil Friðriksson situr í stjórn Málbjargar, félags um stam, þar sem hann hefur verið félagi frá árinu 2016. Að hans frumkvæði réðst félagið í útgáfu barnabókar þar sem stam er meginþemað og var markmiðið að gefa hana í alla grunnskóla landsins. Það er orðið að veruleika en um 250 bækur eru á leiðinni út um allt land.

Brynjar hefur sjálfur stamað alla tíð þótt að það sé varla greinanlegt. „Það kemur þegar það kemur og hefur lítið eða ekkert með stress að gera. Ég þekki stamið mitt og veit af því þarna á bak við en ég hef lært inn á það og nota ákveðin ráð til að halda aftur af því,“ segir hann og bætir við að það skjóti alltaf upp kollinum við og við.

„Þessi klassíska spurning hvort maður stami þegar maður syngur. Nei, maður stamar ekki þegar maður syngur. Það er alveg merkilegt en nær ekkert lengra en það,“ segir Brynjar. „Það nýtist mér ekkert. Ég ætla ekki að fara að syngja fyrir þig, ég syng ekkert vel.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stam gengur í erfðir

„Ég á eldri albróður og við stömum báðir og höfum gert alla tíð. Hann stamar töluvert meira en ég – eða það heyrist meira vil ég meina. Svo eigum við eldri hálfsystkin en þau stama ekki.“

Þannig að gengur stam í ættir?

„Já, það gerir það. Ég á frænda í móðurættina sem stamar en veit ekki til þess í föðurættina. Svo á ég börn og þau stama ekki.“

Málbjörg er lítið félag en það er talið að um eitt prósent mannkyns stami. „Við vitum ekki af hverju við stömum, það eru einhverjar boðleiðir sem klikka. Eins og ég segi þá kemur þetta þegar það kemur og maður veit ekkert hvenær það gerist. Að vísu finnst mér alltaf erfitt að kynna mig en það er bara ég.

Ég get tekið sem dæmi að ég var í MSS [Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum] fyrir nokkrum árum og ég var búinn að vera þar með þessu fólki í nokkurn tíma. Svo var farið í hópverkefni þar sem hóparnir voru að vinna hver í sínu horni og að lokum átti að kynna verkefnið. Við vorum þrjú í hópi og sú sem byrjar að tala byrjar á að kynna sig og ég andvarpa og hugsa: „Af hverju ertu að kynna þig? Við vitum öll hvað þú heitir.“ Þarna vissi ég að þetta yrði eitthvað, ég bara fann það.

Þau vissu ekki að ég stamaði, það hafði ekkert borið á því. Svo kom að mér að kynna mig og ég byrja: „Ég heiti ...,“ og svo var bara allt stopp. Það var ekki eins og ég stamaði, það var bara allt stopp. Ég stóð þarna og fólk fer að hugsa hvað sé eiginlega að gerast, það kveikir ekkert endilega að þetta sé stam. Ég ætlaði bara ekki að koma þessu út en svo tókst það að lokum og svo gekk kynningin á verkefninu sjálfu bara vel.

Núna er ég í námi í Bifröst og fyrsta daginn var svona hópefli og við þurftum að kynna okkur. Þá í fyrsta skipti stóð ég upp og sagði: „Ég vil bara láta ykkur vita að ég stama, ekki láta það koma ykkur á óvart en ég vil bara að þið vitið það.“ Svo kynnti ég mig. Þarna náði ég einhvern veginn að létta álaginu á mér, þá var þetta bara frá.“

Hálfgert tabú

Brynjar, sem er rúmlega fertugur að aldri, segir að stamið hafi verið hálfgert tabú þegar hann var að alast upp. Hlutirnir voru ekkert sérstaklega hafðir uppi á borði þótt stam hafa ekki verið neitt bannorð.

„Ég fór ekki til talmeinafræðings fyrr en ég var unglingur,“ segir hann. „Sem er svolítið seint – en ef þú þekkir einhvern sem stamar þá erum við oft svona eins og gangandi samheitaorðabók, maður skiptir út orðum sem eru erfið. Maður kann orðið leikinn, þetta snýst ekki um að fela neitt heldur vill maður bara tala. Það er mjög leiðinlegt t.d. að vera að segja brandara og svo þegar „punch line“-ið kemur þá stoppar allt, þú ert kannski í hóp og það drepur alla stemmningu. Þetta er óþolandi. Fólk kannski hlær en þetta verður hálfkjánalegt.“

Brynjar segir aðstæður sem þessar geta orðið óþægilegar fyrir alla aðila, bæði þann sem stamar og einnig þá sem eru að hlusta. Fólk fari jafnvel að reyna að botna setningarnar sem er ekki skemmtilegt.

„Fólk vill vel og það gerir þetta ósjálfrátt. Mér finnst sjálfum erfitt að hlusta á þegar fólk byrjar að stama. Maður vill ekki horfa eitthvað annað eða spyrja hvort þetta sé ekkert að koma, það er auðvitað bara dónaskapur.“

Hvernig er það, finnst þér þú hafa liðið fyrir það að stama sem barn?

„Nei, ekki þannig. Ég fór bara í skóla og úr skóla. Ég hef aldrei verið vinamargur en ég kenni staminu ekki um, þetta er bara minn persónuleiki. Ég var hins vegar ekkert að rétta upp hönd þegar ég vissi svarið, ekki þannig að ég skammaðist mín heldur bara leiðinlegt að standa upp og koma hlutunum ekki frá sér. Kannski þetta hafi líka bara verið vani.“

En félagið Málbjörg, hvernig félagsskapur er það?

„Málbjörg er félag til vitundarvakningar um stam og til að veita félagsskap. Við erum ekki mörg sem stömum og þetta er svona vettvangur til að hittast og auka fræðslu. Við heyrum undir ÖBÍ [Öryrkjabandalag Íslands] og sem aðildarfélag höfum við tækifæri til ýmissa verka, eins og t.d. að gefa út bókina Þegar Óliver talar! sem við gáfum út á dögunum,“ segir Brynjar en til að auka meðvitund um stam ætlar Málbjörg að gefa öllum grunnskólum Íslands eintak af bókinni. „Við hefðum ekki getað gefið bókina út án aðkomu ÖBÍ sem styrkir okkur við útgáfu á fræðsluefni.“

Fannst vanta barnabók um stam

„Mér fannst vanta barnabók þar sem stam er meginþemað og þessi saga fellur vel að íslensku samfélagi. Hún er um Óliver, sjö ára strák sem stamar. Honum finnst gaman í körfubolta, að lesa bækur, horfa á þætti og margt fleira – það eina sem honum finnst ekki gaman er að tala. Sagan snýst um verkefni í skólanum þar sem hann á að koma fram og kynna verkefni um sig en Óliver hefur alltaf komið sér undan svoleiðis. Hann fer svo að gera sér grein fyrir því að stamið sé hluti af honum og sagan endar vel.“

Brynjar segir að næst á dagskrá hjá Málbjörgu að fara út í að gera hlaðvarpsþætti með stafrænu markaðsstofunni Kiwi. „Í þáttunum munum við fá gesti eins og talmeinafræðinga, foreldra barna sem stama og slíkt. Mér finnst mikilvægt að hafa þættina í mynd svo fólk sjái því stam er ekki bara það sem það heyrir, við skiptum ekki bara út orðum heldur notum við líka líkamleg trikk til að hjálpa okkur,“ segir Brynjar Emil að lokum en það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þeirra þáttagerðar.

Brynjar afhendir Stefaníu Gunnarsdóttur, forstöðumanni Bókasafns Reykjanesbæjar, eintak af bókinni Þegar Óliver talar! Mynd af Facebook-síðu Bókasafns Reykjanesbæjar


Þegar Óliver talar!

Bókin segir frá ungum dreng sem á í erfiðleikum með að vinna bug á staminu á sama tíma og hann finnur kjarkinn til að sætta sig við það. Þegar Ólíver talar! er hjartnæm saga eftir mæðginin Kimberly Garvin og Saadiq Wicks og byggð á persónulegri reynslu Saadiq Wicks sem hefur stamað frá því hann byrjaði að tala.

Bókin veitir áhrifamikla innsýn inn í reynsluheim þeirra 4–5% barna sem stama og þær áskoranir sem þau geta mætt.

Hér er hægt að nálgast bókina.