Stjórnin leikur á þorrablótinu í Garði
Þorrablót Suðurnesjamanna, stærsta þorrablótið á Suðurnesjum, verður haldið í íþróttamiðstöðinni í Garði laugardaginn 25. janúar 2014. Það eru Björgunarsveitin Ægir og Knattspyrnufélagið Víðir sem standa saman að þorrablótinu en þetta er í fimmta sinn sem það verður haldið. Eins og undanfarin ár mun Axel Jónsson sjá um þorramatinn.
Nú er að komast mynd á dagskrá þorrablótsins. Hljósmsveitin Stjórnin með Sigríði Beinteinsdóttur í fararbroddi mun leika fyrir dansi. Pétur Jóhann Sigfússon mun sjá um að skemmta gestum, auk þess sem Víðisfilm verður með skemmtiatriði, auk The Backstabbing Beatles. Mummi Hermanns leikur undir borðhaldi. Þá verður fjöldasöngur og ýmislegt annað sem er að skýrast þessa dagana.
Forsala aðgöngumiða á þorrablótið í Garði mun hefjast fljótlega og verður nánar auglýst hér í á vf.is þegar hún byrjar.
Hljómsveitin Stjórnin leikur á Þorrablótinu í Garði í janúar nk.