Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 5. febrúar 1999 kl. 21:31

STERKARI SAMAN

Sterkari saman Á þeim þrem árum sem ég hefi setið á Alþingi Íslendinga hefi ég orðið vitni að því hvernig málflutningur stjórnarandstöðuflokkanna sem áður reyndu að finna hver sína sérstöðu í öllum málum hefur orðið samvirkari og fundið í fjölmörgum málum þar sem undirbúinn hefur verið samstæður málflutningur eins og t.d. við afgreiðslu frumvarpa um málefni vinnumarkaðarins og í atlögu ríkisstjórnarinnar að félagslega húsnæðiskerfinu, hversu mikið sterkari við erum þegar við stöndum sama. Jafnvel þó ekki tækist að reka slík mál til baka, þingmeirihluti ríkisstjórnarflokkanna er auðvitað mikill eins og allir vita, þá tókst þó að hnekkja ýmsum verstu ákvæðum þeirra og gera þau óskaðlegri en ella hefði orðið. Þannig fundum við sem stóðum í eldlínunni að við vorum sterkari saman. Kjör ellilífeyris- og örorkuþega hafa versnað í góðærinu. Ríkisstjórnin lofaði að bæta þeirra hag til samræmis við hækkanir á launamarkaði en sveik það að sjálfsögðu. Ef okkur finnst að þessir hópar samfélagsins eigi betra skilið þurfum við að standa saman til að ná því fram. Heilbrigðiskerfið er komið að fótum fram. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga hefur smám saman vaxið þannig að samkvæmt skoðanakönnunum veigrar nú sá hluti þjóðarinnar sem minnst hefur sér til framfærslu sér við að leita læknis. Kostnaðurinn vegna meðferðar á eyrnabólgutilfelli hjá minnsta barninu ríður fjárhag láglaunafjölskyldunnar á slig svo að ekki sé nú talað um tannlæknakostnað foreldranna. Hann þurrkar út möguleika fjölskyldunnar á sumarleyfi það árið. Þessu ætlum við að breyta og til þess verks erum við sterkari saman. Við viljum gera góðan skóla betri. Það er knýjandi nauðsyn að búa á þann veg að menntamálum að við séum samkeppnisfærir við þær þjóðir sem við viljum standast samanburð við. Ef það takmark á að nást þarf að verja meiri fjármunum til skólastarfs. Til að ná því fram erum við sterkari saman. Hluti þjóðarinnar er læstur inni í fátækragildru, inni í vítahring lágra launa, húsnæðiseklu, óhóflegrar skuldsetningar til að komast yfir húsnæði og hárra vaxta. Þetta fólk getur í raun ekki veitt sér nein þau lífsgæði sem annars staðar þykja eðlileg né heldur það sem hjá öðrum telst til nauðsynja. Þetta ástand, meðan aðrir hópar virðast hafa sjálftökurétt um sín lífskjör, er þjóðarskömm. Þessu ætlum við að breyta. Til þess erum við sterkari saman. Sigríður Jóhannesdóttir alþingismaður, býður sig fram í 2. sæti í Reykjanesi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024