Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Stemmningin í Rússlandi var gjörsamlega sturluð“
Föstudagur 22. júní 2018 kl. 07:00

„Stemmningin í Rússlandi var gjörsamlega sturluð“

- Jóhann D. Bianco fór á leik Íslands og Argentínu í Rússlandi

„Við upplifðum bara sama pakka og í Frakklandi fyrir tveimur árum. Íslendingar þarna úti eru bara algjörar rokkstjörnur og öllum langar að taka myndir, myndbönd og viðtöl við Íslendingana, án djóks. Það er helvíti magnað að upplifa þetta, sérstaklega fyrir þá sem eru að sjá þetta í fyrsta skipti,“ segir Jóhann D. Bianco, Jói „drummer“, sem flestir ættu að kannast við en hann er einn af dyggustu stuðningsmönnum íslenska landsliðsins í knattspyrnu og meðlimur Tólfunnar, stuðningssveitar landsliðsins. Jói var staddur í Rússlandi á fyrsta leiknum og við fengum hann til þess að svara nokkrum spurningum fyrir okkur um leikinn, HÚH-ið heimsfræga og hvað sé framundan hjá honum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jói ásamt suðningsmanni Argentínu

Samvera við aðra stuðningsmenn skemmtileg
Jói segir að það sé ekkert eitt sem sé skemmtilegra en annað sem stuðningsmaður íslenska liðsins, hann sé orðinn nokkuð sjóaður í þessu öllu saman eftir EM-ævintýrið og marga landsleiki á erlendri grundu. „Mér finnst oft samskipti og samvera með stuðningsmönnum annarra þjóða vera mjög skemmtileg. Virðingin sem við fáum þarna úti er rosaleg og það eru einhvern veginn allir á Íslandsvagninum.“
Jói segir ennfremur að við eigum að njóta og halda áfram að hlaða í magnaðan minningarbanka því þessir tímar sem við erum að upplifa í dag séu einstakir. „Þetta er alls ekki sjálfsagt en við höfum unnið vel fyrir þessu og nú erum við einfaldlega að uppskera, þetta er svo mikil veisla maður.“

Fyrirliðinn og Jói

Hvar var HÚH-ið?
HÚH-ið heimsfræga var ekki tekið í leikslok með leikmönnum eins og glöggir áhorfendur tóku eftir en mikil stemmning myndaðist í Frakklandi þegar leikmenn tóku HÚH-ið með leikmönnum. „Við tókum það í lokin en ekki beint með leikmönnum eins og við gerðum í Frakklandi. Sætaskipan og miðaúthlutun á þessum leik var eiginlega í bullinu eins og hefur komið fram í fjölmiðlum og vorum við settir ásamt allnokkrum Íslendingum innan um argentínsku hersinguna fyrir aftan annað markið vinstra megin frá okkur séð á meðan mesti fjöldi Íslendinganna var alveg hægra megin.“ Jói segir að þannig hafi stemmningin slitnað örlítið í sundur sem hafi verið mjög pirrandi en þeir höfðu séð fyrir sér sömu grjóthörðu samstöðuna og eininguna og í Frakklandi þar sem Bláa hafið var ein risastór eining. „Á meðan strákarnir voru að fagna stiginu hinum megin við okkur ákváðum við bara að henda í HÚH-ið eftir leik með öllum í stúkunni. Mér finnst þetta mjög lélegt hjá  FIFA og verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður í næstu tveimur leikjum hjá okkur en við vonum það besta.“

Tólfan var að sjálfsögðu í Rússlandi

Slökktum á Messi og Ronaldo
Tveir leikir eru eftir í riðlinum og eru margir bjartsýnir eftir fyrsta leik og við spurðum Jóa hvort Ísland kæmist upp úr riðlinum. „Ég er mikill bjartsýnismaður að eðlisfari og reyni alltaf að sjá björtu hliðarnar í öllu í lífinu, en það verður að viðurkennast að við erum ekki í auðveldasta riðli í heimi. Að því sögðu þá var það auðvitað risastórt dæmi að henda bara í 1-1 gegn þessari mögnuðu knattspyrnuþjóð og slökkva bara á Messi líkt og við gerðum við Ronaldo fyrir tveimur árum. Þessi byrjun gerir það að verkum að leikurinn gegn Nígeríu er gríðarlega stór og þar verðum við að taka sigur.
Þá er þetta farið að líta ansi sexý út og allt galopið i lokaleiknum gegn Króatíu, eins og planið var alltaf.“

Hvetur alla til að styðja strákana
Framundan hjá Jóa er sumarfrí og á meðan hann er í því ætlar hann að horfa á fallegan fótbolta, njóta lífsins og fá sér kannski einn öl í góðum félagsskap. „Maður telur svo bara niður dagana fyrir leikinn gegn Nígeríu þar sem við ætlum öll að fjölmenna í Hljómskálagarðinn yfir leiknum sem er okkar heimavöllur á HM í sumar. Hvet svo að sjálfsögðu þá Suðurnesjamenn sem ekki sjá sér fært að rúlla í bæinn að mæta á torgið við skrúðgarðinn í Keflavík að styðja okkar menn. Svo hendir maður sér bara aftur út til Rússlands daginn fyrir leik gegn Króatíu og setur allan sinn kraft í það ásamt Tólfunni minni og Bláa hafinu að koma strákunum okkar í sextán liða úrslitin.“

What A Time To Be Alive! ÁFRAM ÍSLAND!