Stelpustjórn í nemendafélagi FS
Kosningar til nýrrar stjórnar Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja lauk síðastliðinn föstudag en kjósa þurfti tvisvar vegna þess að hnífjafnt var í nokkrar stöður. Rakel Lárusdóttir var kosin gjaldkeri N.F.S. en hún er ein af fjórum stelpum sem kosnar voru og er skemmtilegt að sjá svona margar stelpur í stjórn. Þetta er í eitt af þeim fáu skiptum sem meirihluti stjórnar er skipaður stelpum. VF tók stutt spjall við Rakel um félagslífið.
Hvernig finnst þér árið hafa gengið hjá fráfarandi stjórn N.F.S.?
Þetta er búið að ganga ágætlega, stjórnin reyndi að rífa þetta upp með ágætum árangri en stór hluti af stjórninni tók þátt í leikritinu Bláu Augun þín sem skólinn setti upp þannig að lítill tími gafst til þess að rífa þetta upp almennilega. Böllin hafa verið fín og að sjálfsögðu leikritið frábært en það tel ég vera toppinn á þessu námsári.
Er á dagskrá að setja á svið nýtt leikrit?
Já, ég ætla svo sannarlega að berjast fyrir því að annað leikrit verði sett á svið á vorönn árið 2005.
Hverju munt þú beita þér fyrir sem gjaldkeri N.F.S.?
Ég ætla mér að koma reglu á fjármál félagsins en lítill tími virðist hafa farið í það á síðastliðnu ári. Mikilvægt er fyrir N.F.S. að hafa fjármál sín á hreinu svo hægt sé að tryggja að peningum sé ekki eytt í vitleysu.
Hvað mun stjórnin leggja áherslu á þegar nýtt skólaár byrjar?
Félagsgjöld og mórall er númer eitt, tvö og þrjú. Til að tryggja traust félagslíf þarf virka þáttöku nemandans en N.F.S. leggur mjög mikið upp úr því að sem flestir nemendur borgi félagsgjöldin því það fjármagn er notað í skemmtanir og uppákomur fyrir nemendur. Félagsgjöldin eru ekki há en þau tryggja nemandanum ýmis fríðindi þar á meðal lægra verð á skemmtanir.
Eru einhverjar nýjungar sem líta dagsins ljós?
Það eru ýmsar hugmyndir sem verið er að vinna að og verður skemmtilegt að sjá hvernig þetta mun koma út þegar haustið nálgast.
Viltu segja eitthvað að lokum til nemenda í FS?
Endilega, hvort sem þið eruð nýnemar eða eldri nemar, borgið þessa litlu fjárhæð sem félagsgjöldin eru og þannig stuðla að uppbyggingu nemendafélagsins en þessi fjölbrautaskólaár eiga að vera þau skemmtilegustu í lífi ykkar.
Myndin: Rakel Lárusdóttir gjaldkeri NFS.VF-ljósmynd/Atli Már Gylfason.