Steikt hangikjöt ómissandi um jólin
Díana Hilmarsdóttir heldur í margar hefðir á jólum. Börnin og eiginmaðurinn velja núna lifandi jólatré sem verður skreytt á Þorláksmessu.
Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi og forstöðumaður Bjargarinnar í Reykjanesbæ, heldur í margar jólahefðir. Hún byrjaði að kaupa jólagjafir í sumar og jólaljósin fá að standa langt fram yfir jólahátíð.
– Hvernig hafa jólagjafakaup gengið á veiruári?
„Ég byrjaði að versla jólagjafir í sumar. Ég reyni að vera skynsöm og útsjónarsöm og ef ég dett inn á sniðugar jólagjafir sama á hvaða árstíma það er þá kaupi ég þær og geymi. Mér finnst ofsalega gaman að fara í búðarferðir í nóvember og desember þegar allt er komið í jólabúninginn, ganga um, njóta skreytinganna og jólaandans en sökum Covid-19 þá þarf maður að fara varlega og útsetja sig sem minnst. Ég hef verslað einhverjar gjafir á netinu í ár og þær fáu gjafir sem ég á eftir að versla mun ég að öllum líkindum panta á netinu eða gegnum síma við viðkomandi verslanir. Stefnan er tekin á að vera búin með jólagjafainnkaupin fyrir miðjan desember. Ég reyni ávallt að versla þær jólagjafir sem ég get í heimabyggð, annað hef ég verslað á netinu og í verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Ég og Emelía Nótt dóttir mín erum vanar að sjá um jólagjafainnpökkun og ætlum að gera slíkt hið sama núna, kveikja á kertum, hlusta á jólalög og njóta saman.“
– Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?
„Nei, því miður ekki í ár. Við vorum að taka eldhúsið í gegn sem kom í veg fyrir það annars hefði það klárlega verið gert. Ég byrja iðulega að skreyta rétt fyrir fyrsta í aðventu. Ég er búin að setja ljósaseríur og ljósaskreytingar í glugga og búa til nokkrar greniskreytingar á borð með kertum og ljósaseríum. Dóttir mín bíður spennt eftir að láta hendur standa fram úr ermum í skreytingunum.“
– Skreytir þú heimilið mikið?
„Nei, ekki þannig finnst mér, spurning hvort maðurinn minn sé sammála því ha ha. Það fer bara eftir gírnum sem ég er í ár hvert, stundum meira og stundum minna en almennt tel ég mig vera meira „less is more“ týpan þegar kemur að slíku. Að vera með ljós og seríur í skammdeginu til að lífga aðeins upp á finnst mér nauðsynlegt og ég er með þau alveg fram í febrúar og stundum lengur, það fer svolítið eftir veðrinu.“
– Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst?
„Ég var alveg ofsalega dugleg áður fyrr að baka en undanfarin ár og sérstaklega eftir að krakkarnir urðu eldri þá fór að draga úr því. Ég er svo heppin með mömmu og tengdamömmu að ég hef iðulega fengið smá hjá þeim t.d. mömmukökur, engiferkökur, súkkulaðidropakökur og lakkrístoppa.
Mér finnst engin jól vera ef ég fæ ekki sörur og ég skal viðurkenna það að ég pantaði mér sörur þessi jólin. Annars hef ég bakað þær með mömmu eða hún hefur gaukað til mín boxi þar sem ég vinn frekar mikið og það er lítill tími aflögu.
Maðurinn minn hefur bakað piparkökur með börnunum okkar frá því að þau voru lítil og ég má ekkert skipta mér af því, þetta er svona þeirra stund saman sem er dásamlegt.
Ég er búin að ákveða að vera dugleg í bakstri þetta árið þar sem ég verð nú að prófa nýja eldhúsið mitt almennilega og mun að öllum líkindum dobbla báða unglingana mína með mér í lið þar.“
– Hvernig sérðu desember fyrir þér í jólastemmningu í ljósi Covid-19?
„Auðvitað er það öðruvísi í ár sökum Covid-19 enda eru þetta algerlega fordæmalausir tímar sem við erum að upplifa. Að sjá bæinn skreyttan og upplýstan bæði af fyrirtækjum, stofnunum og íbúum finnst mér dásamlegt, það gerir alveg ótrúlega mikið fyrir sálartetrið, ég fer ósjálfrátt í meiri jólagír þegar ég er úti að ganga eða keyra og sé fallegar skreytingar og lýsingar. Aðventugarðurinn sem er við Ráðhústorgið og skrúðgarðinn er ég viss um að eigi eftir að vekja mikla lukku sem vonandi mun myndast hefð sem verður fest í sessi hér í bæ. Ég hlakka mikið til að labba um garðinn fallega skreyttan og upplýstan, skoða þann varning sem verður þar til sölu, kaupa mér heitt kakó og ristaðar möndlur og bara njóta. Auðvitað er það skrýtið að geta ekki gert það sem maður er vanur, hitta vini og vandamenn, kysst alla og knúsað og notið samverunnar með öllu fólkinu sínu. Ég held að jólastemmningin verði eins og við veljum sjálf að hafa hana og mín fjölskylda ætlar að gera það besta úr stöðunni og njóta þess að vera saman, fara í göngutúra, spila, hlusta á jólalög, borða góðan mat og klessa okkur saman í sófanum og horfa á góðar myndir og þætti í sjónvarpinu.
Ég væri alveg til að fara að fá jólasnjó, nett lag af fallegum jólasnjó, það birtir svo mikið og það verður svo kósý þegar það er smá snjór yfir öllu.“
– Eru fastar jólahefðir hjá þér?
„Við skreytum alltaf jólatréð á Þorláksmessu, erum stundum með alvöru tré og stundum gervitré. Ég er meira fyrir gervitré en fólkið mitt vill helst alvöru tré. Í ár verður það alvöru tré sem eiginmaðurinn velur með unglingunum.
Jólalögin eru líka hefð, hlustum mikið á jólalög og uppáhaldsjóladiskurinn minn er Nú stendur mikið til með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni.
Laufabrauðsgerð er eitthvað sem má ekki klikka og hefur það verið árleg hefð frá því að ég man eftir mér. Við höfum verið saman í þessu stórfjölskyldan í móðurætt en í ár þá ætlum við mamma að gera þetta hjá mér.
Ég er mikil matmanneskja og það eru engin jól ef ég fæ ekki steikt hangikjöt og rjúpur.
Steikta hangikjötið er gert þannig að það eru skornar þunnar sneiðar af hangilæri og þær steiktar á pönnu upp úr íslensku smjöri. Með þessu þarf að vera alvöru kartöflustappa, grænar baunir og spæld egg. Þetta erum við alltaf með í matinn á gamlárskvöld. Fólk hváir oftar en ekki þegar ég segi því að við steikjum hangikjöt en þessi hefð er orðin 90 ára gömul. Forsagan er sú að langafi Þorgrímur var prestur á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu frá 1931 til 1944 og bjó þar með langömmu Áslaugu prestfrú. Langafi nam að hluta til erlendis, talaði ensku, þýsku og grísku. Það var byggð virkjun í Laxárdal í Þingeyjarsýslu í kringum 1930 og bresku verkfræðingarnir sem þar unnu fóru í messu til langafa og einnig til að spjalla við hann enda ekki margir íslendingar sem töluðu ensku á þessum tíma. Þá langaði mikið í Bacon og egg en það var ekki til Bacon og þá datt þeim í hug að steikja hangikjöt í staðinn og úr varð að langamma ákvað að prófa það og það vakti aldeilis kátínu og sló svona heldur betur í gegn. Síðan þá hefur steikt hangikjöt verið ómissandi í okkar fjölskyldu um jólin. Ég mæli með að áhugasamir prófi og muni eftir að drekka nóg vatn.
Svo er rjúpan alveg annað „möst“ yfir jólahátíðina og auðvitað sérblandað jólaöl sem þarf að blanda í réttum hlutföllum og í réttri röð sem er malt, appelsín og smá kók.
Aðrar fastar hefðir eru jólaboð hjá tengdamömmu á jóladag og ættinni hjá mömmu á annan í jólum en ég stórefast um að af því verði þessi jólin.“
– Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?
Það er ekki nein sterk minning sem kemur upp varðandi jól úr barnæsku þannig lagað. Ég man eftir jólum í Ólafsvík þar sem ég bjó til níu ára aldurs. Ég bjó í efstu götunni í bænum og úr stofuglugganum sást niður á bryggju. Pabbi var á sjó á þessum tíma og það var mjög vont veður ein jólin, ég hef kannski verið sex eða sjö ára. Ég stóð í stofuglugganum með mömmu sem hélt á litla bróður mínum, horfði niður á bryggju á þá báta og skip sem voru við bryggju. Jólaljósin á þeim voru á fleygiferð sökum veðurs og ég man að ég var hrædd um pabba og spurði mömmu hvort pabbi kæmist ekki örugglega heim til okkar. Annars svona í daufri minningu þá man ég eftir jólabakstri, jólalögum, lykt af smákökum og heitu kakó með þeyttum rjóma en hve gömul ég var man ég ekki.“
– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?
„Já, við fjölskyldan fórum saman í messu þegar ég var yngri. Við fórum ansi oft í miðnæturmessu í Víðistaðakirkju á aðfangadag – en svona í mínum búskap þá hefur farið minna fyrir því.“
– Eftirminnilegasta jólagjöfin?
„Minningarbox um pabba minn sem mamma útbjó handa mér og gaf mér í jólagjöf jólin 2018. Pabbi minn lést í júlí 2014 eftir skammvinn veikindi langt fyrir aldur fram, 58 ára gamall. Að missa hann er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum á lífsleiðinni. Minningarboxið er fallegt glerbox og í því eru hlutir sem tengjast pabba mínum, til dæmis vasaúr sem pabbi fékk í 30 ára afmælisgjöf, veiðikortið hans, ökuskírteinið hans, Lions-nælan hans, verðlaunapeningar úr frjálsum íþróttum, Liverpool-merki en pabbi var harður púlari, myndir af mér og pabba og margt fleira. Þetta er sú gjöf sem hefur snert mest við mér tilfinningalega. Ég skoða boxið reglulega og nýt minninganna en pabbi var minn besti vinur og ég sakna hans mjög. Einnig er mynd sem dóttir mín og yngri sonur máluðu handa okkur foreldrunum af okkur hjónum mér mjög kær. Þau nutu dyggrar aðstoðar Bryndísar, systur mömmu, sem er mikil listakona.“