Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stefnir í metsumar
Föstudagur 17. ágúst 2012 kl. 11:21

Stefnir í metsumar

„Ofan á toppár í fyrra, þá erum við að horfa á 10-15% aukningu á gistinóttum á þessu ári. Ferðir um svæðið sjálft eru svo enn fleiri en í fyrra. Þannig að við sjáum fram á metsumar,“ segir Kristján Pálsson hjá Ferðamálasamtökum og Markaðsstofu Suðurnesja.

Aðilar í ferðaþjónustu á Suðurnesjum eru á einu máli um að ferðamönnum er að fjölga á Suðurnesjum og hafa sennilega aldrei verið fleiri en í ár. Víkurfréttir höfðu samband við ýmsa aðila í ferðaþjónustunni á Suðurnesjum og spurðust fyrir um hvernig gengi að anna stöðugum straumi ferðamanna sem koma hingað til lands. 

„Ofan á toppár í fyrra, þá erum við að horfa á 10-15% aukningu á gistinóttum á þessu ári. Ferðir um svæðið sjálft eru svo enn fleiri en í fyrra. Þannig að við sjáum fram á metsumar,“ segir Kristján Pálsson hjá Ferðamálasamtökum og Markaðsstofu Suðurnesja.

„Ef við reynum að meta stöðuna eins og hún er núna með fjölda ferðamanna um Reykjanesið, þá sjáum við að það er aukning miðað við í fyrra. Í fyrra töldum við ferðir um 100 gíga garðinn svokallaða við Reykjanesið og þar fórum um 110 þúsund manns, það sama má segja um Krýsuvík og nágrenni. Okkur sýnist að í Krýsuvík sé um 30% meiri rútuumferð en í fyrra. Þar hefur verið sett upp hús í Seltúni sem er með salernisaðstöðu og lágmarksþjónustu.“ Varðandi Suðurstrandaveginn þá segir Kristján að hann sé nú ekki enn kominn inn á kortið en hann hefur þó verið auglýstur nokkuð að mati Kristjáns og segir hann að fólk fari nú líklega að átta sig á að þessi vegur sé til.

Kristján segir stöðuga uppbyggingu eiga sér stað hér á þessu svæði og þar ber að nefna Reykjanesið en þar koma fjölmargir ferðamenn með rútum m.a. úr skemmtiferðaskipum. Þar skortir hins vegar salernisaðstöðu og eru þau mál öll í vinnslu og undirbúningur fyrir byggingu þjónustuhúss í gangi. Ferðamálasamtökin eru nú með það land á Reykjanesi sem ekki tilheyrir virkjunum á leigu og með því að byggja upp aðstöðu og bjóða upp á þjónustu þá á það að standa undir kostnaði af leigu og til þess að halda uppbyggingu þar áfram. „Með þessu hugsum við okkur að fá ferðamenn til þess að stoppa lengur og gefa í leiðinni af sér til þess að við getum gert meira fyrir það svæði,“ segir Kristján.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og staðan er í dag nú yfir háannatímann þá eru öll hótel full og Bláa lónið tekur ekki við fleiri ferðamönnum. Það er því möguleiki fyrir fleiri aðila að fara á þann markað að bjóða upp á gistingu fyrir ferðamenn að sögn Kristjáns. „Það eru auðvitað miklir möguleikar á Ásbrú. Mál varðandi nýtingu húsnæðis hér á Ásbrú undir gistingu eru auðvitað viðkvæm gagnvart samkeppni við þá sem eru með gistirekstur annars staðar á Suðurnesjum. Allt verður þetta að gerast í góðri sátt og ég vona að svo geti verið. Ef menn sjá fram á mikla aukningu ferðamanna þá þarf að ríkja sátt um hvaða ráðstafanir verða gerðar.“

Kristján segir svæðið hérna vera sérstaklega aðgengilegt fyrir ferðamenn og það sé líka opið allt árið um kring. Kristján er einnig á því að ferðamenn séu í miklum mæli að stoppa hér á svæðinu. „Það keyri hér um á bílaleigubílum og fólk virðist í auknum mæli vita af þessu svæði. Þegar hótelunum fjölgar og fjölbreytnin í gistiaðstöðu verður meiri, þá fjölgar ferðamönnum, það hefur sýnt sig. Í fyrra jókst nýtingin á hótelunum frá 30% upp í 40%, þrátt fyrir aukið gistirými. Það sýnir okkur að það var þörf fyrir meira og fjölbreyttara gistipláss,“ en með tilkomu nýrra gistiheimila í Garði og Sandgerði eru núna komin gistiþjónusta í öll bæjarfélög á svæðinu.

Kristján segir að það séu aðallega þrír staðir á Suðurnesjum sem dragi hvað flesta ferðamenn að. „Bláa lónið sem er auðvitað stærsti ferðamannastaður á landinu, Krýsuvík og það svæði, og að lokum Reykjanesið. Aðstaðan er orðin boðleg í Krýsuvík og nú þarf það sama að gerast úti á Reykjanesi.“

Yfir 100 þúsund gistingar á hótelum og gistihúsum eru árlega á Suðurnesjum og Kristján segir að í raun sé verið að spenna bogann að fullu. „Það hefur tekið langan tíma að byggja upp ferðamannaþjónustuna. Menn hafa ekki verið of ginkeyptir fyrir því að setja nógu mikinn pening í þessi mál. Bæði í Krýsuvík og á Reykjanesi skortir pening en hægt og bítandi er það að gerast. Þegar þau svæði hafa verið byggð upp þá höfum við fullkominn hring. Við höfum alla möguleika á að bjóða upp á það sama og best er í boði annars staðar.“

Kristján bætir því við að uppbyggingin hér hafi verið sérstök að því leyti að ferðaþjónustan hafi ekki fengið mikinn stuðning fjárhagslega frá sveitarfélögum á svæðinu. „Þau hafa kannski ekki haft burði til þess á undanförnum árum, en þegar fjármagn var til þá voru ekki að renna miklir peningar í ferðaþjónustuna með beinum hætti. Ferðamálasamtökin fengu t.a.m. engan stuðning við stofnun Markaðsstofu Suðurnesja. Sveitarfélögin vildu ekki taka þátt í því. Markaðsstofan fær eingöngu styrki frá ríkinu og einkaaðilum,“ sagði Kristján að lokum.