Stefna tekin á heimsklassa stað
Þráinn Freyr Vigfússon, fyrirliði kokkalandsliðsins, er meðal fremstu matreiðslumeistara Evrópu og hefur náð einstökum árangri í alþjóðlegum matreiðslukeppnum.
„Við erum með fullt af fólki sem vill skara framúr á sínu sviði og það er gaman að vinna með öllum þeim sem koma að starfsemi Bláa Lónsins á degi hverjum og taka þátt í uppbyggingu þess. Veitingaþátturinn er mikilvægur hluti af heildarupplifun Bláa Lónsins. Þetta er bara teymisvinna, ekkert annað,“ segir Þráinn Freyr Vigfússon, einn af yfirmatreiðslumeisturum Bláa Lónsins og kom til starfa í september.
Með gott starfsfólk
„Umhverfið er einstakt og spennandi að starfa innan ferðaþjónustunnar, þar sem matarupplifunin skiptir miklu máli. Staðsetningin, nálægðin við náttúruna, fiskurinn úr sjónum við Grindavík og uppbyggingin sem er á döfinni eru allt þættir sem gera starfið enn áhugaverðara. Þá er gaman að taka þátt í því sem matreiðslumeistararnir Ingi og Viktor eru búnir að byggja upp hér í Bláa Lóninu, ásamt Magnúsi Héðinssyni sem stýrir sviðinu,“ segir Þráinn og bætir við að hugmyndir séu um enn frekari stækkun og þróun. „Við erum með gott starfsfólk hjá okkur og erum að undirbúa okkur fyrir framtíðina. Við mætum miklum skilningi hjá þeim sem reka Bláa Lónið. Það skiptir svo miklu máli.“ Stefnan sé tekin á heimsklassa stað sem á að laða að erlenda og innlenda gesti. Heildarupplifun sem felst í mat, spa og gistingu.
Erum við öllu búin
„Við erum með efnilega matreiðslumenn og erum að byggja upp það teymi sem þarf í framtíðarþróun. Við finnum líka að vegna þess að við erum búin að byggja upp ákveðinn gæðastaðal þá hefur það þau áhrif að fólk sækir í að starfa hérna. Þetta er langhlaup og gerist ekki á einni nóttu,“ segir Þráinn. Hann starfaði á Michelin-stjörnu veitingastaðnum, Domaine de Clairfontane í Lyon í Frakklandi, auk þess sem hann hefur starfað sem aðstoðaryfirmatreiðslumeistari á Grillinu og yfirmatreiðslumeistari á Kolabrautinni hér heima. Hann segir starfið vera fjölbreytt en jafnframt mikla áskorun. „Hingað koma margir og það skiptir máli að halda í þann hóp. Kannski eru 2000 manns í Lóninu og það þarf ekki nema brot af því til að fylla salinn. Því verðum við að vera við öllu búin, hafa nægt starfsfólk og viðhalda góðri þjónustu,“ segir Þráinn að lokum.