Stauraskór og menning á Suðurnesjum
Í vikunni fór fram starfsgreinakynning fyrir nemendur 8. og 10. bekkja grunnskólanna á Suðurnesjum í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Þar voru samankomnir fulltrúar fjölmargra starfsgreina á svæðinu og víðar að til að kynna störf sín fyrir starfsfólki framtíðarinnar.
Fulltrúar menningartengdra starfa létu sig ekki vanta þar enda um mjög vaxandi atvinnugrein að ræða í samræmi við aukna kröfu fólks um fjölbreytta upplifun sem hluta af því að lifa innihaldsríku lífi. Menningargeirinn þarf á fólki með ákaflega fjölbreytta menntun að halda og því margar leiðir færar til að eiga möguleika á störfum þar.
Til hvers var þetta notað?
Krökkunum stóð til boða að taka þátt í getraun þar sem þeir áttu að giska á hlutverk þess forláta hlutar sem sést hér á myndinni og fengu þau vísbendingu um að hann tengdist með einhverjum hætti rafmagni eða síma. Fjölbreytt svör bárust og sum ansi hreint frumleg. Tíu krakkar römbuðu á rétt svar og var Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi fengin til að draga úr réttum lausnum. Sú heppna heitir Þórhildur Erna Arnardóttir og hlýtur hún í verðlaun glæsilegan bakpoka frá Símanum.
Rétt svar var stauraskór eða skór til að klifra upp rafmagns- eða símastaura. Ekki vantaði þó hugmyndaflugið hjá krökkunum og meðal skemmtilegra svara sem bárust voru m.a. hjólavél, dót sem maður hreyfir fæturna í til að búa til rafmagn, hleðslutæki fyrir síma á meðan maður labbar, tæki til að raka gras, snjóskór, sláttuvél, notað sem klukka, ísskór, tæki til að hlaða síma, til að mæla skóstærð, pyntingartæki, til að taka upp mold, til að rækta.
Sigurvegarinn Þórhildur Erna er 2. frá vinstri á myndinni
Fulltrúar menningartengdra starfa. Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður byggðasafns, Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir verkefnastjóri ferðamála, Kristín Ósk Wium fulltrúi Hljómahallar.
Valgerður menningarfulltrúi dregur úr réttum svörum.