Starfshlaupið var grænt í ár
Í síðustu viku fór fram 22. starfshlaup Fjölbrautaskóla Suðurnesja en keppnin hefur verið fastur liður í starfi skólans síðan árið 1994.
Í ár kepptu fimm lið í hlaupinu og bar Græna liðið sigur úr býtum eftir ansi spennandi keppni. Appelsínugula liðið endaði rétt á eftir því Græna og Gula liðið lenti í því þriðja. Græna liðið hlaut því Starfshlaupsbikarinn og pítsuveislu í verðlaun.
Í hverju liði eru nokkrir tugir keppenda sem keppa í ýmsum þrautum og safna stigum. Fyrir hverju liði fara nokkrir fyrirliðar sem koma úr hópi væntanlegra útskriftarnemenda. Umsjónarmenn Starfshlaupsins eru íþróttakennararnir Kristjana Hildur Gunnarsdóttir og Andrés Þórarinn Eyjólfsson.