Starfsgreinakynning fyrir grunnskólanema í dag
- Yfir 60 manns munu kynna störf sín.
Starfsgreinakynning fyrir nemendur í 9. og 10. bekk í íþróttahúsinu við Sunnubraut í dag. Þar fá nemendur að skoða þau störf sem verða kynnt á milli kl 9 og 12. Yfir 60 manns munu þar kynna störf sín og það nám sem viðkomandi hefur að baki. Umsjónakennarar munu fara með nemendum í strætó og verða þeim til halds og trausts á kynningunni.
Markmiðið með starfskynningunni er að efla starfsfræðslu fyrir elstu bekki grunnskóla, stuðla að aukinni starfsvitund og skýrri framtíðarsýn, meðal annars vegna þess að hlutfall þeirra 10. bekkinga sem halda áfram námi að loknum grunnskóla er lægra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu. Starfskynningin er liður í átaksverkefni til eflingar menntunar á Suðurnesjum.
Meðal starfa sem kynnt verða eru arkitekt, bakari, bifvélavirki, dýralæknir, fatahönnuður, félagsráðgjafi, flugmaður, leikskólakennari, ljósmóðir, prestur og þyrluflugmaður.
Starfskynningin er liður í Sóknaráætlun landshluta á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og unnin í samstarfi Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja og Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.