Starfsfólk Glitnis í Reykjanesbæ hljóp til góðs
Laugardaginn 19. ágúst fór fram hið árlega Reykjavíkurmaraþon Glitnis og hefur umgjörðin um hlaupið aldrei verið glæsilegri enda var þátttökumet slegið, alls hlupu um 10.200 manns en í fyrra hlupu rúmlega 4.100. Glitnir kynnti í vor þá nýjung að bankinn myndi heita á þá starfsmenn sína sem tækju þátt í Reykjavíkurmaraþoninu með því að greiða 3.000 kr. til góðgerðarmála fyrir hvern hlaupinn kílómetra. Óhætt er að segja að starfsfólkið í útibúinu í Reykjanesbæ hafi tekið þessari áskorun vel og hlupu fimm starfsmenn bankans alls 46 kílómetra. Starfsmennirnir ákveða sjálfir hversu langt þeir hlaupa og hvaða góðgerðarsamtök fá að njóta framlagsins. Una Steinsdóttir, útibústjóri, fór fyrir sínu fólki og hljóp 21 kílómeter á prýðilegum tíma fyrir Þroskahjálp á Suðurnesjum. Sighvatur Gunnarsson, viðskiptastjóri, hljóp fyrir Ungmark í Reykjanesbæ og safnaði starfsfólkið rúmum 300 þúsund krónum fyrir hin ýmsu félög með framlagi Glitnis og fjölda áheita. Una sagði í samtali við Víkurfréttir að sér hefði liðið vel á meðan á hlaupinu stóð enda fallegt veður og mikil samkennd meðal hlaupara. “Stemningin hér í bankanum hefur líka verið frábær seinustu vikur. Það er virkilega skemmtilegt þegar allir leggjast á eitt um að láta gott af sér leiða og það að 502 starfsmenn Glitnis skyldu taka þátt í hlaupinu og safna yfir 22 milljónum til góðgerðarmála fór langt framúr okkar björtustu vonum.”
Á myndinni eru Bjarni Ármannsson, Sighvatur Gunnarsson, Soffía Ólafsdóttir og Bryndís Skúladóttir frá Glitni. Halldór Leví Björnsson og Theodór Guðbergsson f.h. Þroskahjálp á Suðurnesjum og Gunnar Þórarinsson f.h. Ungmark.