Starfsbraut FS fékk skemmtilega heimsókn
Fyrir stuttu fengu nemendur á starfsbraut 2 í Fjölbrautaskóla Suðurnesja mjög skemmtilega heimsókn frá Ólafi Inga Jónssyni sjúkraflutninga- og slökkviliðsmanni hjá Brunavörnum Suðurnesja. Ólafur kom með mörg tæki og tól og fengu nemendur tækifæri til að prófa klæðnað og grímur. Það er hluti af námi nemenda á starfsbraut að fara út á vinnumarkaðinn og/eða fá heimsóknir frá fólki úti á vinnumarkaðinum. Tilgangurinn er að nemendur fá tækifæri til að kynnast mismunandi störfum í þjóðfélaginu.
Að efla starfsfærni nemenda fyrir þátttöku á vinnumarkaði er eitt af markmiðum starfsbrautar. Í starfsnámi fá nemendur tækifæri til þess að kynna sér ýmis störf og mismunandi vinnustaði. Með því að tengja námið við vinnustaði öðlast nemendur oft aðra sýn á námið í skólanum og tilgangur námsins verður skýrari. Mikilvægt er að leggja áherslu á styrkleika hvers og eins en ekki þær hindranir sem þeir búa við.
Myndir frá heimsókninni eru í ljósmyndasafni Víkurfrétta hér á vf.is.