Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Starfið væri leiðinlegt án áskoranna“
Sunnudagur 25. mars 2018 kl. 06:00

„Starfið væri leiðinlegt án áskoranna“

- Hulda Jóhannsdóttir hlaut tilnefningu Stórnvísis

Hulda Jóhannsdóttir, skólastjóri heilsuleikskólans Króks í Grindavík, hlaut tilnefningu til stjórnunarverðlauna Stjórnvísis, en Stjórnvísir er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi, sem er í eigu félagsmanna og ekki rekið í hagnaðarskyni. Samkvæmt heimasíðu Stjórnvísis eflir félagið gæði stjórnunar á Íslandi með því að skapa hvetjandi vettvang fyrir gagnkvæma þekkingarmiðlun, umræður og tengslamyndun.
Hulda segir að tilnefningin hafi komið sér á óvart og að það hafi verið ákveðin verðlaun út af fyrir sig að vera tilnefnd. Hulda hefur verið skólastjóri í sautján ár og segir að starfið sé ævintýri alla daga.

Hefur verið heppin með starfsfólk
Heilsuleikskólinn Krókur opnaði árið 2001 og hefur Hulda verið skólastjóri hans frá opnun. Stefna leikskólans var frá byrjun að efla velferð og vellíðan nemenda og starfsfólks, en Hulda segir að það sé afar mikilvægt að starfsfólki leikskólans líði vel í sínu starfi því það smiti út frá sér til nemenda skólans. „Ég hef verið heppin með starfsfólk og hef haldið góðum kjarna og fagmönnum. Ég gerði mér samt sem áður alveg grein fyrir því þegar leikskólinn opnaði að faglærðir kennarar kæmu ekki fljúgandi inn. Í gegnum tíðina hef ég hvatt góða kandídata í kennaranámið, núna starfa fjórar hér á leikskólanum sem byrjuðu sem leiðbeinendur og hafa farið og menntað sig sem leikskólakennara.“
Hulda hefur haft það að leiðarljósi í sínu starfi að líta á hlutina sem áskorun en ekki álag. „Sumir vilja meina að starfsmannahaldið sé erfiðast en ég lít ekki á það sem svo, ef maður horfir ekki á það sem álag eða neikvætt þá er einfaldara að takast á við það að mínu mati og starfið er ævintýri alla daga því þú veist aldrei hverju þú átt von á, það er svo skemmtilegt við þetta starf.“



Börn í leik á Heilsuleikskólanum Krók

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áskoranir en ekki álag
Margar gagnrýnisraddir hafa verið í samfélaginu undanfarin misseri vegna lengingu námsins úr þremur í fimm ár, gagnrýnin hefur m.a. snúist um að námið sé of langt fyrir lág laun. „Ég veit að það er minnkandi aðsókn í námið, og að mínu mati er það neikvæða orðræðan í samfélaginu sem veldur því.
Við erum alltaf að tala um langt nám, léleg laun og mikið álag en samt viljum við hafa fagfólk. Auðvitað er álag, þó ég vilji ekki tala um álag heldur áskoranir, en það er eru áskoranir hér eins og í öllum öðrum störfum. Það gleymist svolítið að hugsa um það.“

Þarf að tala fallega um starfið
Hulda segir að starfið á leikskólanum væri örugglega ekki mjög skemmtilegt ef það væru engar áskoranir og hún vill að við hugsum aðeins út í það. „Við erum svolítið föst í að tala um að þetta starf sé svo erfitt og ég vil að við hættum því. Við verðum að tala þetta frábæra, æðislega starf upp því hvað er mikilvægara en að fá að taka þátt í uppeldi og menntun yngstu kynslóðarinnar? Það er fátt eins skemmtilegt og að hitta börnin af leikskólanum, hér eða utan skólans, og þau faðma mann og maður finnur hlýjuna frá þeim. Og hversu mikilvægt er að foreldrunum líði vel með að skilja börnin sín eftir í okkar umsjá og þeir séu ánægðir? Leikskólaárin eru mikilvægustu ár barnsins og við verðum að huga vel að velferð og þeirra vellíðan.


Flottir félagar

Mikilvægt að huga að velferð allra
Heilsuleikskólinn Krókur vinnur með núvitund og velferð. Núvitund er einn áhersluþáttur leikskólans í velferð – ekki bara barnanna heldur líka starfsfólksins. „Það skiptir miklu máli að huga að velferð allra því það er grunnurinn. Þegar okkur líður vel erum við betur í stakk búin til að þroskast og tileinka okkur nám og því þarf að huga vel að þessum þætti. Þar byrjum við, það er ekki hægt að ætlast til þess að við gerum eitthvað eða aðlaga skólann okkar, því það þarf að huga vel að starfsfólkinu.“ Skólafólk þarf að finna leiðir til að huga að velferð og vellíðan og viðhalda þeim. Góðar hugmyndir vilja oft deyja út í skólastarfi og Það krefst mikillar vinnu að halda í ákveðnar stefnur eða viðhalda breytingum. „Það þarf að halda vel í góðar hugmyndir, leyfa þeim að lifa og þróast og passa upp á það að þær dofni ekki út.“ Krókur byrjaði með verkefnið „Hjálparhendur“ árið 2007 og hefur viðhaldið því verkefni allt frá því að það var kynnt. „Við höfum viðhaldið þeirri vinnu því þetta er dásamlegt verkfæri til þess að kenna börnum samhygð og að vera góð við hvort annað sem er andstæða eineltis. Við höfum haldið í þetta alla tíð og fólk sem kemur hingað inn og sér börnin gera þetta spyr alltaf strax hvað þau séu að gera og þá eru þau að rétta öðrum hjálparhönd.“

Á sama tíma og heilsuleikskólinn Krókur tekur inn Hjálparhendur þá eru stjórnendur að skoða samskiptastefnur og huga að því hvert þau vilja stefna. Fáar stefnur náðu að heilla þær Huldu og Bylgju aðstoðarskólastjóra, allt þar til fór hópurinn í heimsókn á leikskóla í Reykjavík sem hafði verið að vinna með jóga. „Leikskólinn sem við heimsóttum í Reykjavík var að vinna þróunarverkefni og allir kennararnir hér á Króki urðu yfir sig hrifnir af því og þá komum við upp með þá hugmynd að nota öndunina, slökunina, snertinguna og umhyggjuna úr jógafræðunum til þess að skapa ró og vellíðan. Markmið okkar frá upphafi hefur verið að nota umhyggjuna á markvissan og faglegan hátt, þannig að þú sem starfsmaður og nemandi munir vita hvers vegna þú værir að nýta það verkfæri sem þú ert að nota hverju sinni.“

Hulda ásamt Guðna Th., forseta Íslands við verðlaunaafhendingu Stjórnvísis.

Jákvæð skólamenning skiptir öllu máli
Krókur bjó til stefnu sem heitir „Rósemd og umhyggja“ og þegar Hulda fór síðar í framhaldsnám, þá notaði hún stefnuna og mótun hennar sem diplómaritgerð. „Við sáum hvað þetta var að virka innan veggja skólans og svo pössuðu Hjálparhendur svo vel inn í þetta og allt róaðist hjá okkur. Ég tók líka eftir því, þegar ég byrjaði í mínu námi og fór að skoða skólamenningu, hvað hún skiptir öllu máli í skólastarfinu, sérstaklega það að byggja upp jákvæða skólamenningu.“ Hulda segist hafa unnið lokaritgerðina sína út frá jákvæðri skólamenningu og skoðaði vel hvað Krókur hafði verið að gera. „Ég sá það að við erum að skapa þetta andrúmsloft en við höfum unnið mikið með kennarahópnum í gegnum árin og það er ekki einhver einn sem talar yfir annan eða neitt slíkt, við vinnum í sameiningu. Ég vann líka ritgerðina mína út frá því hvernig kennarinn er sjálfur, hans virðing og viðhorf til starfsins.“

Nemendur í kyrrðarstund

Jóga fyrir alla
Öll börnin í skólanum fá eina jógastund í viku og nokkrir starfsmenn stunda einnig jóga saman eftir vinnu. Síðan Hulda kynntist núvitund, og fór að skoða rannsóknir um núvitund og hugleiðslu, sá hún að þær sýna fram á skapa betri líðan. „Ég sá hvernig núvitund hjálpaði til við að stjórna tilfinningum, efldi samhygð og kenndi börnum að vera góð hvort við annað. Nokkrir úr kennarahópnum eru einmitt í jóga en við fórum að skoða núvitund með kennara frá Grunnskólanum, sem heitir Halldóra, og Hörpu Rakel, starfsmanni hér, og saman ákváðum við að sækja styrk fyrir verkefnið Hér og nú í Sprotasjóð. Við fengum stóran styrk til að þróa verkefnið sem við aðlöguðum síðan að okkar stefnu, Rósemd og umhyggju.“

Nemendur nýta verkfærin heima
Allir nemendur Króks fá kyrrðarstundir einu sinni í viku og segir Hulda þær mikilvægar. „Við lítum á kyrrðarstundirnar sem kennslustundir í svo mörgu, að elska sjálfan sig, hrósa, sjálfsöryggi, sjálfsmynd. Læra að slaka á og hvernig er hægt að nota öndun til að róa sig o.þ.h. Oft er vináttan tekin fyrir og þá er verið að tala um hana í kyrrðarstundinni.“ Nemendur hafa nýtt sér þau verkfæri sem þau fá í kyrrðarstundunum heima. „Við höfum fengið að heyra frá foreldrum af börnum sem fara í kyrrðarstund heima hjá sér, þau finna það að þau vilja stíga til hliðar og fá smá kyrrðarstund. Þannig að þau eru að tileinka sér það sem þau læra hérna. Það er svo dásamlegt að heyra þetta og þau nota líka Hjálparhendur heima.“

Nemendur í leik

Mikilvægt að hafa stjórntæki utan um stefnuna
Hulda var tilnefnd, eins og kom fram hér að ofan, til verðlauna Stjórnvísis og er það meðal annars vegna þess hvernig hún setti stefnu leikskólans upp. „Stefnan var sett upp með svokallað „Ballance Scorecard“, eða Stefnumiðað árangursmat, sem fyrirmynd en ég kynntist því í stjórnunarnáminu mínu. Í bókinni Afburðarstjórnun, Metnaður menning og mælanleiki er meðal annars fjallað um það hvernig ég stjórna skólanum og starfinu út frá aðferðinni sem ég notaði til að setja stefnuna upp. Hún er notuð í viðskiptalegum tilgangi en það er hægt að útfæra hana fyrir aðrar starfsstéttir. Mér finnst líka svo gott að hafa smá ramma þó svo ég sé ekki kassalaga. Þessi fyrirmynd hentaði mér mjög vel til að halda utan um stefnu skólans, meta starfið og móta framtíðarsýn.“

Stjórnandi þarf að vera fylginn sér
Hulda hefur vakið athygli fyrir stjórnun og skipulag en leikskólinn tekur á  móti fjölmörgum gestum yfir skólaárið. Við spurðum Huldu hver lykillinn að farsælli stjórnun væri. „Það er svo margt, en það er í rauninni að vera fylginn sér og hafa ákveðna sýn. Svo skiptir líka miklu máli að ef þú finnur að eitthvað er að virka þá er mikilvægt að viðhalda því og ég held að það sé mesta áskorunin í skólastarfinu, að viðhalda þeirri vinnu sem fyrir er. Það þarf líka að vera vilji til að viðhalda og líka til að breyta.“ Það að viðhalda því sem verið er að gera er mjög mikilvægt og teymisvinnan skiptir miklu máli, segir Hulda en Krókur er með teymi fyrir stefnurnar sínar og hvert og eitt teymi stjórnar hverri stefnu. Hulda segir einnig að stjórnandi þurfi að vera á tánum og að það sé mikilvægt að vita hvað sé að gerast alls staðar í starfinu. „Það er líka kúnst að fá starfsfólk með sér og „selja“ hugmyndir og viðhalda þeim, það er meginþátturinn í stjórnun.

Einbeiting með Lego kubba

Ólíkir stjórnendur sem vega hvor aðra upp
Að sögn Huldu er farsælt samstarf hennar og aðstoðarskólastjórans, hennar Bylgju, því að þakka hversu ólíkar þær eru. „Við erum mjög ólíkar en leggjum mikla áherslu á samræðuna sem er lykillinn að okkar samstarfi. Við gefum okkur tíma til að tala saman ef eitthvað kemur upp á, við vitum oft hvað hin er að hugsa og það er mikilvægt að við getum speglað okkur áður en tekist er á við verkefnin.
Við grínumst stundum með það að ég á það til að fara fram úr mér en hún stígur varlegar til jarðar þegar við erum að taka ákvarðanir eða nýjar hugmyndir vakna. En við gefum okkur alltaf tíma til að setjast niður og ræða málin og komast að farsælli niðurstöðu, auðvitað erum ekki alltaf sammála en okkur finnst mikilvægt að takast á og að samstarfsfólk okkar viti það. Því það að leyfa sér að takast á um ólíkar skoðanir og virða þær er mikilvægt í öllu samstarfi. Þetta módel, ef svo má kalla, hefur skapað framsækna en mjög ígrundaða stefnu í skólanum sem gerir það af verkum að við erum farsæll skóli og vekjum athygli. Ég segi stundum að ég væri ekki þar sem ég er nema fyrir hana Bylgju mína“.