Starfið mitt „Veit aldrei í hverju maður getur lent“
Kristján Helgi Jóhannsson er 31 árs slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Brunavörnum Suðurnesja. Kristján starfaði um tíma sem pípulagningarmaður en hann er með sveinspróf í því fagi frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Hann á ekki margar einingar eftir til að klára stúdentinn en Kristján er alltaf á leiðinni að mennta sig meira.
Fótboltinn hefur ávallt tekið mikið af hans frítíma en Kristján reyndi fyrir sér sem leikmaður hér á árum áður með þokkalegum árangri. Fæturnir voru á endanum orðnir eins og ríkisstjórnin er í dag, það var ekkert hægt að treysta á þá og nánast allt slitið sem slitnað gat en núna ganga þeir á þrjóskunni einni saman, þó hægt sé.
Kristján ákvað að trappa sig niður frá fótboltanum með því að fara í stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur. „Þetta tekur bara helmingi meiri tíma frá mér en þegar ég var leikmaður,“ sagði Kristján. „En ég er einstaklega heppinn að eiga ofboðslega skilningsríka og yndislega eiginkonu, Írisi Sigurðardóttur, sem styður mig í einu og öllu.“ Saman eiga þau þrjú börn, Söru Lind 8 ára, Jóhann Elí 3 ára og Ágúst Inga 3 mánaða.
Hvað gerir þú í vinnunni?
Það er kannski einn af kostum vinnunnar, maður veit aldrei í hverju maður getur lent. Vinnan er yfirleitt mjög fjölbreytt en við störfum bæði sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn en þó eru fastar rútínur sem við förum í gegnum. Til að mynda eftirlit með bifreiðum og búnaði, mjög reglulegar æfingar og vettvangsferðir þar sem við skoðum fyrirtæki og stofnanir svo eitthvað sé nefnt.
Hvernig líkar þér við vinnuna þína?
Mér líkar mjög vel við vinnuna. Fjölbreytt, góðir vinnufélagar og vaktakerfi sem mér líkar vel við, enn sem komið er. Væri samt til í að fá betrumbætur á vinnuaðstöðunni okkar sem er orðin mjög döpur, vægt til orða tekið. Erum búnir að sýna mikla þolinmæði hvað það varðar en hún er alveg á þrotum.
Er þetta gefandi starf?
Mjög gefandi starf. Við lendum oft í aðstæðum sem krefjast þess að við getum unnið undir miklu andlegu og líkamlegu álagi og ef ég tala fyrir mína hönd hefur það lagt mikið inn í minn reynslubanka. Vinnan er þannig úr garði gerð að við hittum mikið af fólki og í langflestum tilvikum getum við aðstoðað eða veitt hjálparhönd sem er mjög gefandi.
Hvert er draumastarfið?
Stór spurning en afar lítið um svör. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég er ekki búinn að mennta mig meira. Ég veit ekki enn hvað mig langar að gera en það kemur að því.