Star Wars veisla í Nýja Bíó í kvöld
Stjörnustríðsaðdáendur hafa að undanförnu beðið með mikilli eftirvæntingu eftir heimsfrumsýningu nýjustu Star Wars myndar George Lucas – Revenge of the Sith. Biðin er loksins á enda og í kvöld mun Nýja Bíó við Hafnargötu í Keflavík taka myndina til sýningar ásamt fjölmörgum öðrum kvikmyndahúsum um land allt. Verður myndin sýnd kl. 17, 20, og 22:45 í Keflavík en að sögn Ingibers Ólafssonar, bíóstjóra í Keflavík, hefur mikil spenna ríkt meðal bíógesta og eftirvæntingin hefur ekki látið á sér standa enda margir búnir að versla sér miða í forsölu.
Star Wars: Episode III – Revenge of the Sith er lokakafli fyrri þríleiks Stjörnustríðsmyndanna. Loks fá bíógestir að sjá umbreytingu hins unga Anakins Skywalker í hinn illa Svarthöfða. Í Revenge of the Sith er Klónastríðinu að ljúka og Lýðveldið sendir Obi-Wan Kenobi í leiðangur til að uppræta aðskilnaðarsinnana Dooku greifa og Grievous hershöfðingja. Á meðan er Palpatine þingmaður að spinna sinn eigin vef til valda og umbreyta Lýðveldinu í Keisaradæmið illræmda. Í miðjum skarkalanum er svo Anakin sem sífellt hneigist meir að hinni myrku hlið máttarins. Padame kona Anakins neyðist til að fara í felur og framundan er uppgjör sem við þekkjum öll.
VF-mynd / Svarthöfði ekki árennilegur