Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sunnudagur 20. desember 1998 kl. 19:38

STANGVEIÐIFÉLAG KEFLAVÍKUR 40. ÁRA

Stangveiðifélag Keflavíkur hélt sína árlegu árshátíð þann 21. nóvember sl. og var þar margt um manninn enda voru félagsmenn einnig að halda upp á 40 ára afmæli félagsins. Okkur fannst því ekki úr vegi að fræðast eilítið um hagi og störf félagsins síðastliðna fjóra áratugi og fengum við formann félagsins, Gunnlaug R. Óskarsson, til liðs við okkur og fletta gömlum félagsblöðum sem félagið hefur gefið út reglulega hin síðari ár. STOFNFUNDUR Það var á þorradögum ársins 1958, að nokkrir áhugasamir veiðimenn koma saman og undirbúa stofnun félagsins. Kosin var nefnd til að vinna að málinu og hinn 18. febrúar er stofnfundurinn haldinn í Tjarnarlundi í Keflavík. Fjölmenni var á fundinum og gengu mál samkvæmt hefðbundinni venju, kosin var stjórn og lög voru sett. Félagið hlaut nafnið Stangveiðifélag Suðurnesja í byrjun en því var síðar breytt í Stangveiðifélag Keflavíkur. Í niðurlagi fundargerðarinnar segir hinsvegar: „Að loknu stjórnarkjöri voru áhugamál og starfsemin almennt til umræðu. Almennur áhugi virtist ríkja, svo stofnun félagsins má álíta mjög tímabæra.“ Í fundargerðarbókinni hinni fyrstu, sem telur einar 298 þéttskrifaðar blaðsíður má lesa sögu félagsins fram til ársloka 1984 þar til ný bók tekur við. Í henni má einnig lesa að aldrei hefur starfsemi félagsins fallið niður á þeim tíma og er óhætt er að segja að frá stofndegi hafi starf félagsins vaxið fiskur um hrygg í orðsins fyllstu merkingu. Það sem helst vantar upp á upplýsingar varðandi stofnfundinn, var að skrá nöfn allra stofnfélaganna en einhverra hluta vegna fórst það fyrir og er þetta sennilega eina eyðan í blómlegu starfi félagsins frá upphafi. Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Sigurður Erlendsson og gegndi hann því starfi til ársins 1960. Síðan þá hafa eftirtaldir formenn haldið um stjórnvölinn: Ástvaldur Þórðarson, 1960-1964, Bjarni Albertsson, 1964-1968, Friðrik Sigfússon, 1968-1981, Ragnar Pétursson, 1981-1984, Sigmar Ingason, 1984-1988, Þórhallur Guðjónsson, 1988-1992, Eðvald Bóasson, 1992-1996 og Gunnlaugur A. Óskarsson, sem gengt hefur starfinu frá 1996. HÚSNÆÐI Á fyrstu árum félagsins og reyndar langt fram eftir aldri, átti félagið sér engan samastað. Voru stjórnarfundir haldnir á heimilum stjórnarmanna og þar af leiðandi enginn ákveðinn geymslustaður fyrir gögn og eigur félagsins. Árið 1976 var síðan tekið á leigu húsnæði að Hafnargötu 26 og var það gert í samvinnu við Verkstjórafélag Suðurnesja en fljótlega kom í ljós að húsnæðið var óhentugt fyrir starfsemina og því enn farið á stúfana eftir öðru húsnæði. Þremur árum seinna fengu félagsmenn til leigu Suðurgötu 4a, sem var þá í eigu Sparisjóðsins en það hafði staðið autt um tíma og þarfnaðist mikilla viðgerða. Drifu menn í að lagafæra húsið að innan og hafðist það með mikilli elju og dugnaði félagsmanna, sem lögðu sig alla fram við verkið. Þarna fengust tvö góð skrifstofuherbergi og fundarsalur ásamt tilheyrandi vistarverum og geymslu í kjallara. Það var síðan þann 12. október 1990 að gengið var frá kaupunum á þessu húsnæði. Í framhaldi af kaupunum var síðan gerður eignaskiptasamningur við Byggingarsamvinnufélag aldraðra á Suðurnesjum í júlí 1991 á Suðurgötu 4a og 86 fermetra húsnæði í nýbyggingu sem er núverandi húsnæði félagsins að Hafnargötu 15. VEIÐISVÆÐI Á þessum tímamótum er nokkuð forvitnilegt að líta yfir veiðisvæðin sem félagið hefur haft í boði fyrir félagsmenn sína og aðra áhugamenn um veiðiskap. Bæði hefur félagið haft nokkur veiðileyfi á viðkomandi svæði svo og heildarleigu en alls hafa 32 svæði verið í boði frá upphafi. Á fyrstu árunum var félagið með nokkur leyfi í ám í Borgarfirði en fyrstu varanlegu ítökin voru í Fáskrúð í Dölum og þá í samstarfi við Stangveiðifélag Akraness. Þessi félög sameinuðust síðar um leigu á Haukadalsá í Dölum frá árunum 1965-1978 og einnig í Flókadalsá í Borgarfirði. Á sl. sumri fékk félagið síðan á leigu Reykjadalsá í Borgarfirði, sem það haft áður um langt árabil og Hrolleifsdalsá í Skagafirði. Hinsvegar hafa vatnsföll í Skaftafellssýslu verið stærstu liðir í veiðileyfum félagsins frá árinu 1970 en þá tók félagið á leigu Geirlandsá á Síðu og hefur haldið henni æ síðan. Geirlandsáin hlýtur að teljast demanturinn í rekstri félagsins enda hafa margir tekið ástfóstri við svæðið og þar á félagið myndarlegt veiðihús. Einn ágætur veiðimaður lýsti viðhorfi sínu á þessa leið: „Þessi á fellur svo vel að mínum smekk að mér finnst bara að ég hafi verið með guði þegar hann var að skapa hana.“ Fleiri ár sem félagið hefur í leigu á þessu svæði eru Vatnamót við Skaftá, efri hluti Hörgsár á Síðu og Fossálar en einnig hefur félagið veiðirétt í Heiðarvatni í Mýrdal, þar sem ófáar fjölskyldurnar hafa dvalið í ægifögru umhverfi. Þá hefur félagið haft í umboðssölu einn tíunda hluta veiðiréttar á móti SFVR í Stóru-Laxá í Hreppum frá árinu 1989. Ótaldar eru síðan fjölmargar ár sem félagið hefur haft nokkur veiðileyfi til úthlutunar á undanförnum áratugum. FÉLAGSLÍF Það er óhætt að segja að félagslífið sé í fullum blóma og félagið, sem nú telur 282 félagsmenn, hefur á að skipa duglegri húsnefnd sem hefur bryddað upp á einkar líflegum kvöldum í skammdeginu. Síðastliðna vetur hafa verið haldnir fyrirlestrar á opnu húsi og fjöldi þekktra gesta úr stangveiðinni heiðrað félagið með nærveru sinni s.s. Þröstur Elliðason, Össur Skarphéðinsson, Eggert Skúlason, Ingvi Hrafn Jónsson, Gylfi Pálsson og Helga Guðrún Johnson, en hún hélt sérstakt kvennakvöld, þar sem einungis konum var boðið að koma. Þá hafa einnig verið haldin námskeið í fluguhnýtingum og fluguköstum á vegum félagsins og má geta þess að allir þessir viðburðir verða áfram í boði félagsins í vetur. Að lokum skal getið félagsblaðs Stangveiðifélags Keflavíkur, sem komið hefur reglulega út síðastliðna tæpa tvo áratugi og hefur ómetanlegar heimildir að geyma. Félagið hefur haft styrkar stoðir innan sinna vébanda í ritnefndinni og útgáfan ætíð glatt glorsoltna veiðimenn á fyrsta ársfjórðungi hvers árs enda ber það hróður félagsins jafnt inn á við sem út á við. Megi sá hróður vaxa og dafna félaginu til heilla á komandi árum og áratugum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024