Stafgöngunámskeið Önnu Leu og Bróa
Atorkusömu hjónin Anna Lea og Brói fara bráðlega af stað með stafgöngunámskeið. Námskeiðið sjálft hefst þriðjudaginn 17. maí og er um sex kvölda námskeið að ræða sem fer fram á hálfum mánuði. Kennt verður á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Mæting er kl. 18:30 í stúkuna við knattspyrnuvöllinn í Keflavík. Skráning á námskeiðið fer fram í síma: 421 4315, 899 8020, 891 8099 eða í tölvupósti: [email protected]
Stafganga er ganga þar sem gengið er með sérhannaða stafi og hentar flestum sem geta gengið. Stafgöngu er hægt að stunda hvar sem er og hvenær sem er óháð veðri, aldri, kyni eða líkamlegu ástandi.
Söguleg þróun stafgöngunnar
Árið 1997 var farið að markaðssetja stafgöngu fyrir almenning í Finnlandi. Áður höfðu skíðagöngumenn í Finnlandi notað stafgöngu á sumrin til þess að halda líkamanum í formi. Svíðjóð, Noregur, Sviss, Austurríki og Þýskaland ásamt Íslandi eru þjóðir sem hafa fyrstar allra tileinkað sér þessa íþrótt. Nú er talið að um að ein milljón manna í heiminum stundi stafgöngu a.m.k. einu sinni í viku.
Hér á Íslandi hóf tilraunahópur Kvennahlaups ÍSÍ stafgöngu í júní 2003 og vakti verðskuldaða athygli á göngu sinni. Í framhaldinu hefur ÍSÍ staðið að menntun stafgönguleiðbeinenda sem eru í því að kynna stafgönguna og halda námskeið fyrir almenning. Nýlega gaf ÍSÍ út fræðslubæklinginn, Stafganga góð leið til heilsubótar og er hann ókeypis og verður öllum aðgengilegur.
Áhrif Stafgöngu á líkamann
Í stafgöngu brennum við 20% meira en í venjulegri gönguþjálfun. Hjartsláttur per/slag á mínútu hækkar og við aukum loftháðaþjálfun og vöðvaþol. Við styrkjum vöðva í efri búk 40% meira en í venjulegri göngu og drögum úr spennu og vöðvabólgu í hálsi og herðum. Stafgangan eykur liðleika og eykur jafnvægi. Bætir skap og andlega heilsu, dregur úr þunglyndi og þreytu. Stafganga er góð leið í endurhæfingu eftir meiðsli eða sjúkdóma í samráði við fagaðila.
VF-mynd/ Anna Lea